Sprengingin sem varð í áburðarverksmiðju í smábænum West í Texas í nótt kom fram á jarðskjálftamælum og mældist 2,1 stig, segir í frétt CNN.
Staðfest er að tveir slökkviliðsmenn létu lífið við slökkvistörf í verksmiðjunni í nótt og óttast er að um 60-70 séu látnir.
„Margir slösuðust,“ hefur CNN eftir bæjarstjóranum Tommy Muska. „Það eru margir sem verða ekki hér á morgun.“
Hann segir að sprengingin hafi verið eins og „kjarnorkusprengja.“
Um 2.800 manns búa í smábænum West og hafa þeir flestir verið beðnir að yfirgefa svæðið því enn er hætta á frekari sprengingum þar sem ýmis eldfim eiturefni eru notuð við framleiðsluna í verksmiðjunni.