12 látnir og 60 saknað í Texas

Fundist hafa 12 lík eftir sprenginguna í áburðaverksmiðju í Texas á miðvikudag. 60 er enn saknað. Yfir 200 manns slösuðust. Málið er rannsakað sem glæpur, en stjórnvöld segja þó líklegast að eldur hafi valdið sprengingunni.

Um 50 heimili eru rústir einar eftir sprenginguna. Björgunarsveitir hafa leitað að eftirlifendum og látnum á 150 heimilum en eiga enn eftir að leita á 25 heimilum til viðbótar. „Við lítum svo á að björgunaraðgerðir standi enn yfir,“ sagði Jason Reyes, talsmaður almannavarna í Texas á blaðamannafundi í dag.

Lögreglumaðurinn Patrick Swanton sem búsettur er á svæðinu segir leit í húsarústunum mikið verk sem gangi hægt, enda þurfi að tryggja að rústir húsanna séu öruggar svo þær hrynji ekki yfir björgunarmenn. „Við vonum það besta en búum okkur undir það versta,“ sagði Swanton í dag.

Um 2.800 manns búa í smábænum West, sem er í um 129 km fjarlægð frá Dallas. Göturnar voru að mestu auðar í dag að sögn AFP.

Áburðarfyrirtækið, West Fertilizer Company, var í fyrra sektað um ríflega 10 þúsund dali fyrir háskalega flutninga á hættulegum efnum. Stjórnendur fyrirtækisins gerðu sátt við dómstóla og greiddu á endanum ríflega 5 þúsund dali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert