Þrítugur Bandaríkjamaður, Jason Dement, bíður nú ákæru í Tyrklandi fyrir tilraun til að smygla steinum sem teljast forngripir úr landi. Máli hans svipar mjög til máls Davíðs Arnar Bjarnasonar, sem var í fangelsi í Tyrklandi í tæpa viku í mars og bíður enn niðurstöðu.
Dement var handtekinn á flugvellinum í Antalya síðasta sunnudag, 14. apríl. Hann var á leið heim ásamt konu sinni eftir 6 daga frí en hefur verið úrskurðaður í farbann. Eiginkonu hans var hleypt úr landi. Þau eru búsett í Þýskalandi þar sem hann starfar á bandarískri herstöð.
Dement hefur stofnað bloggsíðu þar sem hann segir sögu sína og biðlar til fólks að styrkja sig með framlögum þar sem hann sjái fram á mikinn lögfræðikostnað. Bandarískir fjölmiðlar hafa sýnt máli hans nokkra athygli, þ.á.m. Washington Times og Huffington Post.
Fann steinana á baðströnd við hótelið
Á blogginu segist Dement svo frá að hann hafi verið tekinn til hliðar á flugvellinum vegna steina sem hann hafi fundið á baðströnd nærri hótelinu sínu og ákveðið að taka með sér heim. Tveir steinanna voru sendir í rannsókn og benda niðurstöður til þess að þeir kunni að vera frá tímum Rómaveldis sem þýðir að þeir skilgreinast sem forngripir.
Eftir sólarhring í varðhaldi var Dement stefnt fyrir dómara sem úrskurðaði hann í farbann þar til réttað verður í máli hans. Honum var engu að síður sleppt lausum úr haldi, þar sem dómarinn taldi að einhver sem ekki þekki til hafi ekki getað borið kennsl á verðmæti steinanna, ekki síst þar sem þeir fundustu ekki á sögulegum stað.
Heppinn að vera laus
Dement segist á bloggi sínu telja sig heppinn að vera ekki í varðhaldi því lögmaður hans hafi upplýst hann um að svona mál geti orðið „mjög ljót, mjög hratt“. Hann hafi þó um ekkert að velja annað en að bíða í Tyrklandi þar til málið verður tekið fyrir og óttast um fjárhagslega afkomu fjölskyldu sinnar á meðan. Lögmaður hans ætlar að beita sér fyrir því að honum verði hleypt til Bandaríkjanna á meðan málarekstrinum stendur.
„Lögmaður minn segir mér að mál af þessu tagi séu ekki óalgeng í Tyrklandi og að þetta sé alltaf að koma fyrir. Yfirleitt fá þessi mál ekki eins mikla athygli og í mínu tilfelli, en mér skilst að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að stjórnvöld mismuni okkur eða láti mig líða fyrir fjölmiðlaathyglina.“
Hann segist nokkuð viss um að fá ekki fangelsisdóm en ekki sé útilokað að hann verði dæmdur til hárrar sektargreiðslu.
Mál Davíðs tekið fyrir í næstu viku
Davíð Þór Bjarnason var einnig úrskurðaður í farbann eftir handtöku hans í Tyrklandi þann 8. mars. Honum var þó á endanum hleypt heim þann 30. mars. Mál hans verður tekið fyrir í Tyrklandi þann 25. apríl næst komandi.
Hámarksrefsing fyrir að smygla fornmunum úr landi í Tyrklandi er 5 ára fangelsi og allt að 300 milljóna líru sekt, sem nemur um 20 milljónum króna.