Fjöldi látinna enn óljós

00:00
00:00

Enn er óljóst hversu marg­ir lét­ust í spreng­ingu í áburðar­verk­smiðju í bæn­um West í Texas í fyrrinótt. Lög­regla sagði í gær að talið væri að fimm til fimmtán manns hefðu látið lífið en ótt­ast er að mun fleiri hafi lát­ist í spreng­ing­unni.

Yfir 160 manns slösuðust og tug­ir húsa eyðilögðust í bæn­um, sem er skammt frá borg­inni Waco, sam­kvæmt frétt breska rík­is­út­varps­ins. Meðal ann­ars er þriggja eða fjög­urra slökkviliðsmanna saknað.

Björg­un­ar­sveit­ir og lög­reglu­menn rýmdu um helm­ing bæj­ar­ins í kjöl­far spreng­ing­ar­inn­ar. Eld­ar loguðu enn í bæn­um mörg­um klukku­stund­um eft­ir spreng­ing­una og ótt­ast var að önn­ur spreng­ing eða gas­leki yrði í áburðar­verk­smiðjunni. Um tíma var einnig talið að íbú­un­um gæti stafað hætta af eit­ur­guf­um.

Sjón­ar­vott­ar sögðu að stór eld­hnött­ur hefði mynd­ast þegar spreng­ing­in varð. „Það var eins og kjarn­orku­sprengja hefði sprungið,“ sagði Tommy Muska, bæj­ar­stjóri West. „Eyðilegg­ing­in var gríðarleg,“ hef­ur frétta­vef­ur CNN eft­ir lög­reglu­stjór­an­um Par­nell McNa­m­ara. „Þetta er eins og stríðssvæði.“

Spreng­ing­in olli jarðskjálfta sem mæld­ist 2,1 stig, að sögn banda­rískra jarðskjálfta­fræðinga. Spreng­ing­ar­inn­ar varð vart í allt að 80 km fjar­lægð frá áburðar­verk­smiðjunni.

Ekki var vitað í gær hvað olli spreng­ing­unni. Emb­ætt­is­menn í bæn­um sögðu að talið væri að spreng­ing­in hefði orðið vegna ammoní­aks. Í verk­smiðjunni voru um 20 tonn af vatns­fríu ammoní­aki, að sögn banda­rískra fjöl­miðla.

Sprengi­hætta get­ur stafað af áburði, sem inni­held­ur amm­ún­íumnítrat, við meira en 290°C hita, t.a.m. af völd­um eld­ing­ar eða bruna vegna raf­magnsneista. Spreng­ing get­ur þó ekki orðið í áburði, sem inni­held­ur amm­ún­íumnítrat, nema hann sé geymd­ur í miklu magni á sama stað, að sögn frétta­veit­unn­ar AFP. Spreng­ing­ar hafa orðið í áburðar­verk­smiðjum vegna amm­ún­íumnítrats, til að mynda í Tou­lou­se í Frakklandi árið 2001 í verk­smiðju þar sem 300 tonn af efn­inu voru geymd. Þá fór­ust um 30 manns.

Amm­ún­íumnítrat hef­ur verið notað í sprengj­ur, t.a.m. í sprengju­til­ræðinu í miðborg Ósló­ar árið 2011.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert