Harry prins ætlar á suðurpólinn

Harry Bretaprins mun taka þátt í leiðangri hermanna sem særðust í stríðinu í Afganistan á suðurpólinn. Prinsinn greindi frá þessu í gærkvöldi en hópurinn æfði einmitt fyrir ferðalagið á Íslandi í mars.

Lagt verður af stað í ferðalagið í nóvember en um 335 km göngu er að ræða. Harry prins er þyrluflugmaður í breska hernum og hefur meðal annars gegnt herþjónustu í Afganistan.

Sagði hann á blaðamannafundi í Lundúnum í gærkvöldi að fólkið sem færi í ferðina hefðu lagt mikið á sig fyrir málstað frelsisins. Enn einu sinni ætli þau að sýna hæfni sína og getu, nú með göngu á suðurpólinn. Sem sýni og sanni ótrúlegt þrek og kosti þessa hóps. 

Í mars 2011 tók Harry þátt í ferð á norðurpólinn, en hann þurfti frá að hverfa til að mæta í brúðkaup bróður síns.

Hermennirnir sem taka þátt í leiðangrinum eru á vegum Walking With The Wounded góðgerðasamtakanna, sem starfa undir verndarvæng Harry prins. 18 hermenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada taka þátt í leiðangrinum.

Hermennirnir eiga það sameiginlegt að hafa særst í Afganistan. Sumir hafa misst fætur og einn leiðangursmanna er blindur. Sex eru í breska liðinu, en þeir eru samtals með aðeins sex fætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert