Kýpur var tilraunadýr fyrir Evrópusambandið vegna aðgerða sem sneru að því að skattleggja bankainnistæður. Þetta sagði forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, á fundi í forsetahöllinni í höfuðborginni Nicosiu með fulltrúum frá Evrópuþinginu.
Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) samþykktu formlega í síðustu viku að veita Kýpur björgunarpakka vegna efnahagserfiðleika eyríkisins að upphæð 10 milljarða evra. Skilyrði þess er að kýpversk stjórnvöld útvegi sjálf 13 milljarða evra í viðbótartekjur. Stærstur hluti þess á að skila sér í gegnum skattlagningu á innistæður.
„Kýpur er ekki að biðja um sérmeðferð en vill fá réttláta og sanngjarna meðferð með sömu skilyrðum og önnur Evrópusambandsríki sem átt hafa í erfiðleikum,“ sagði Anastasiades.
„Við erum einfaldlega að fara fram á það sem við eigum rétt á: samstöðu. Því miður hafa þessi grundvallargildi Evrópusambandsins ekki verið virt. Þvert á móti hafa ákvarðanir, sem teknar hafa verið fyrirfram af hagsmunaaðilum, verið framkvæmdar með þvingunum.“