Fulltrúar í alþjóðaviðskiptanefnd Evrópuþingsins samþykktu á fundi sínum í gær með naumum meirihluta að fyrirhugaðar fríverslunarviðræður á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna næðu ekki til hljóð- og myndefnis. Er samþykktin í samræmi við kröfur franskra stjórnvalda sem hafa sett það sem skilyrði fyrir viðræðunum.
Formaður nefndarinnar, Vital Moreira, varaði við því eftir atkvæðagreiðsluna að það væri ekki hjálplegt að útloka ákveðna málaflokka áður en fríverslunarviðræðurnar hæfust en til stendur að það verði í sumar. Hann sagðist vona að niðurstaðan ætti eftir að verða önnur þegar greidd yrðu atkvæði um málið á Evrópuþinginu í maí.
Evrópuþingið verður ekki aðili að fríverslunarviðræðunum en talið er nauðsynlegt að stuðningur þess liggi fyrir. Fram kemur í frétt Euobserver.com að áhyggjur séu uppi um það að einstök ríki Evrópusambandsins vilji taka ýmis mál út fyrir sviga í viðræðunum en frönsk stjórnvöld hafa auk hljóð- og myndefnis undanskilja varnarmál í þeim auk þess sem þau vilja ekki opna meðal annars á innflutning á erfðabreyttra matvæla frá Bandaríkjunum.