Tugir líka þeirra sem létust þegar verksmiðjubyggingin Rana Plaza hrundi í námunda borgarinnar Dhaka í Bangladess fyrir rúmri viku fundust í braki hússins í morgun. Staðfest hefur verið að a.m.k. 650 hafi látist, en margra er enn saknað.
Á suma líkamana vantaði útlimi, önnur voru þegar farið að rotna það mikið að ekki hefur tekist að bera kennsl á þau. Sumir voru með farsíma í vösum sínum eða auðkenniskort og þannig var hægt að staðfesta um hverja var að ræða.
Örvæntingarfullir aðstandendur hinna látnu og þeirra sem enn hafa ekki fundist söfnuðust saman í morgun þegar stórvirkar vinnuvélar hófu að grafa í gegnum brakið. Mikla nálykt liggur frá slysstaðnum og því þykir nokkuð víst að fjölmörg lík séu enn grafin undir rústunum.
Eiginkona eins þeirra verkamanna sem létust í slysinu hefur kært Rana, sem er eigandi byggingarinnar, einn af eigendum verksmiðjunnar og verkfræðing borgarinnar fyrir morð. Verði þeir fundnir sekir gætu þeir verið dæmdir til hengingar. Rana er nú í haldi lögreglu, ásamt 11 öðrum sem eiga hlut að máli. Meðal þeirra eru fjórir eigendur verksmiðjunnar, en ljóst þykir að þeir hafi neytt starfsfólkið til að halda áfram störfum þó að sprungur hafi verið teknar að myndast í byggingunni.