Enn finnast lík þeirra sem létust þegar verksmiðjubyggingin Rana Plaza hrundi í Dakka, höfuðborg Bangladess, fyrir tveimur vikum. Nú hafa 782 fundist látnir, en búist er við því að talan eigi eftir að hækka talsvert.
Ekki er vitað með vissu hversu margir voru að störfum í fataverksmiðjunni sem var í byggingunni er hún hrundi, en þeir eru taldir hafa verið a.m.k. 3.000. Stjórnvöld segja að 2.437 manns hafi verið bjargað lifandi.
Nú er unnið að hreinsunarstörfum á slysstað, stórvirkar vinnuvélar hreinsa brak hússins og sífellt finnast lík, mörg þeirra í stigagöngum þar sem fólk var í örvæntingu sinni að reyna að komast út úr húsinu er það byrjaði að hrynja. Byggingin hrundi á fimm mínútum og þá lokaðist fólkið inni.
Fataframleiðsla með ódýru vinnuafli er ein helsta tekjulind Bangladess og óttast stjórnvöld þar nú að slysið verði til þess að alþjóðleg stórfyrirtæki dragi framleiðslu sína út úr landinu. Tilkynnt hefur verið að sett verði á stofn rannsóknarnefnd sem muni kanna aðstæður í þeim mörg þúsund fataverksmiðjum sem eru í landinu.