Mistök að setjast í bíl hjá ókunnugum manni

Dómari í Cleveland í Ohio úrskurðaði í dag að Ariel Castro verði ekki látinn laus nema gegn greiðslu átta milljóna dala tryggingargjalds (um 937 milljónir kr.) Castro, sem er atvinnulaus fyrrverandi rútubílstjóri, var ákærður fyrir að hafa rænt og nauðgað þremur konum sem hann hélt föngnum á heimili sínu í um áratug.

Þetta var í fyrsta sinn sem Castro mætti fyrir dómara eftir að málið komst upp, en það hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum og víðar. Castro, sem er 52 ára gamall, tók ekki afstöðu til ákærunnar í réttarsal. Hann dvelur nú í fangelsi og er grannt fylgst með honum af ótta við að hann fremji sjálfsvíg.

Castro var handtekinn á mánudaginn eftir að hin 27 ára gamla Amanda Berry náði að biðja nágranna sinn um aðstoð. Hún hafði verið í haldi Castros ásamt tveimur öðrum konum í um áratug. Nágrannanum tókst að opna dyrnar með því að sparka í hurðina og þannig kom hann Berry og sex ára gamalli dóttur hennar til bjargar. Dóttirin fæddist á meðan Berry var fangi Castros.

Lögreglumenn voru kallaðir á vettvang og fóru þeir inn í húsið. Þar fundu þeir tvær konur til viðbótar; hina 23 ára gömlu Ginu DeJesus og Michelle Knight, sem er 32 ára.

Castro hafði rænt þeim konunum, sem tengdust ekkert, á mismunandi stöðum í Cleveland fyrir um 10 árum.

Í dómsalnum var Castro formlega ákærður fyrir að hafa rænt og nauðgað þremur konum, og fyrir að hafa rænt barninu.

Castro eigi ekki að fá að ganga laus

Saksóknarinn Brian Murphy krafðist þess að tryggingargjaldið yrði himinhátt til að tryggja það að Castro geti ekki að gengið laus á meðan hann bíður eftir að réttarhöldin hefjist.

Murphy segir að það hafi verið að yfirlögðu ráði sem Castro ákvað að ræna konunum, sem voru allar búsettar í vesturhluta Cleveland. Hann hafi síðan notað þær á þann máta sem honum þótti við hæfi.

„Tvö fórnarlamba hans þurftu að þola miklar þrekraunir í rúman áratug, það þriðja í tæpan áratug, og þrekraunin leiddi að lokum til þess að ein kvennanna fæddi lítið stúlkubarn á meðan hún var fangi, að því er talið er,“ sagði Murphy.

Hann segir að konurnar hafi mátt þola ítrekaðar barsmíðar. Þær hafi verið bundnar, beittar kynferðisofbeldi og að þær hafi aldrei fengið að yfirgefa húsið.

Castro laut höfði í réttarsal í dag og lét lítið á sér bæra.

Dómarinn komst að lokum að þeirri niðurstöðu að það væri við hæfi að tryggingagjaldið væri átta milljónir dala, eða tvær milljónir á hverja konu og barnið.

Skrifaði sjálfsvígsbréf árið 2004

Kathleen DeMetz, sem var skipaður verjandi Castros, telur líklegt að yfirvöld ákveði að hafa hann einan í klefa og undir nánu eftirliti, en óttast er að hann muni reyna að taka eigið líf. Þá verði séð til þess að enginn hafi aðgang að honum.

Verjandinn segir ennfremur, að Castro hafi ekki efni á því að greiða tryggingagjaldið, en útvega þarf a.m.k. 800 þúsund dali í reiðufé.

Fjölmiðlar í Cleveland hafa greint frá því að lögreglan hafi við leit heim hjá Castro fundið bréf þar sem lýsir hann sjálfum sér sem kynferðisafbrotamanni. Þá segist hann íhuga að fremja sjálfsvíg og láta allan ævisparnaðinn renna til fórnarlambanna.

„Þær eru hérna gegn vilja sínum af því að þær gerðu þau mistök að setjast upp í bifreið hjá ókunnugum manni,“ segir í bréfinu. Talið er að það hafi verið skrifað árið 2004 þegar hann var búinn að ræna tveimur konum.

Ýmsar fleiri upplýsingar varðandi rannsókn málsins hafi lekið í fjölmiðla undanfarna daga, m.a. að konunum hafi verið nauðgað margsinnis, beittar ofbeldi og þær hafi misst fóstur. Frank Jackson, borgarstjóri Cleveland, hefur í kjölfarið hvatt lögregluna og fjölmiðla til að virða einkalíf kvennanna.

Bræðurnir tengjast ekki mannránunum

Bræður Castros, þeir Pedro, sem er 54 ára, og Onil, sem er fimmtugur, voru einnig handteknir í tengslum við málið. Saksóknarinn segir hins vegar að rannsóknin hafi ekki leitt neitt í ljós sem tengir þá við mannránin.

Þeir mættu einnig fyrir dómara í dag, rétt á undan bróður sínum. Þeir játuðu sök varðandi önnur minniháttar brot sem áttu sér stað fyrir rúmum 10 árum, m.a. að þeir hafi drukkið áfengi á almenningsstöðum.

Nágrannar Castros velta því nú fyrir sér hvernig það geti verið að hægt sé að halda þremur konum föngnum í húsi við ósköp venjulega götu í borginni í allan þennan tíma án þess að lögreglan aðhafist nokkuð.

Yfirmenn lögreglunnar segja sér til málsbóta að málið eigi sér sínar skýringar, m.a. hafi Castro lagt mjög mikið á sig til að fela konurnar.

Ariel Castro situr nú á bak við lás og slá …
Ariel Castro situr nú á bak við lás og slá í fangelsi í Cuyahoga-sýslu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert