„Ég vissi allan tímann að dóttir mín var á lífi,“ sagði Felix DeJesus við blaðamenn eftir að Gina DeJesus sameinaðist fjölskyldu sinni, en hún var í haldi mannræningja í Cleveland í Ohio í næstum 10 ár.
„Ég vissi að dóttir mín þarfnaðist mín og ég gafst aldrei upp við að leita að henni,“ sagði DeJesus um leið og hann þakkaði lögreglunni, fjölmiðlum og öðrum sem tóku þátt í að leita að stúlkunum sem hurfu.
„Mér finnst eins og ég sé að upplifa draum. Ég þarf að klípa mig í handlegginn til að trúa þessu,“ sagði Nancy Ruiz, móðir DeJesus, þegar hún var spurð um viðbrögð sín við óvæntri heimkomu dótturinnar.
Ariel Castro, 52 ára rútubílstjóri, kemur fyrir rétt í dag í Cleveland, en hann var í gær ákærður fyrir mannrán og nauðgun. Bræður hans tveir verða ákærðir fyrir minniháttar brot, en lögreglan telur að þeir hafi ekki tengst mannránunum eða haft upplýsingar um að bróðir þeirra lokaði þrjár ungar konur og barn inni í húsinu.
Lögreglan segir að Castro sé samvinnuþýður og að hann hafi fallist á að aðstoða lögreglu við að sanna hver sé faðir Jocelyn, sex ára stúlku, sem fannst í húsinu. Móðir hennar er Amanda Berry, 27 ára. Auk hennar var Gina DeJesus, 23 ára, í húsinu. Þær tvær hafa sameinast fjölskyldum sínum. Þriðja konan, Michelle Knight, 32 ára, er enn á sjúkrahúsi.