Castro er faðir stúlkunnar

Ariel Castro í réttarsal í gær ásamt verjanda sínum.
Ariel Castro í réttarsal í gær ásamt verjanda sínum. AFP

Ariel Castro, sem er sakaður um að hafa rænt þremur konum og haldið þeim föngnum heima hjá sér í um áratug, er faðir sex ára gamallar stúlku sem fannst einnig í húsinu.

Lögregluyfirvöld í Cleveland í Ohio hafa staðfest þetta, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Castro, sem er 52 ára gamall, var í gær ákærður fyrir að hafa rænt og nauðgað Amöndu Berry, Ginu DeJesus og Michelle Knight.

Niðurstöður DNA-rannsóknar hafa leitt í ljós að Castro er faðir barnsins. Það fæddist á meðan konurnar voru fangar hans í húsinu.

Sl. mánudag tókst Berry að sleppa út úr húsinu og gera lögreglu viðvart. Lögreglumenn fóru á vettvang og fundur hinar konurnar og barnið. Castro var handtekinn í kjölfarið.

Saksóknarar í Ohio hafa jafnframt greint frá því að þeir hyggist reyna að ákæra hann fyrir morð, en refsingin við slíku er dauðarefsing. Hann er sakaður um að hafa þvingað fram fósturlát með því að misþyrma Knight.

Hún heldur því fram að hann hafi barnað sig og í fimm skipti hafi hann þvingað fram fósturlát með því að berja hana og svelta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert