„Gerið það, bjargið mér“

„Ég átti mjög erfitt með að láta heyrast í mér. Ég sparkaði í allt sem ég gat með fótunum en enginn heyrði í mér,“ segir kona sem björgunarsveitir fundu í dag á lífi í í rústum verksmiðju sem hrundi fyrir 17 dögum í Dhaka, höfuðborg Bangladess.

Björgunarsveitarmenn segja að konan heiti Reshma. Hún fannst í rústum á annarri hæð hússins þegar björgunarsveitir heyrðu hana hrópa: „Gerið það, bjargið mér.“

Um nokkrum klukkustundum eftir að yfirvöld í landinu höfðu greint frá því að tala látinna væri komin yfir 1.000, og flestir búnir að gefa upp vonina á fleiri myndu finnast á lífi, heyrðu menn í Reshmu kalla á aðstoð.

Sjónvarpsstöðvar fylgdust grannt með björgunaraðgerðunum sem voru sýndar í beinni útsendingu. Fjölmenni safnaðist saman til að fylgjast með og voru prestar beðnir um að biðja fyrir konunni.

„Guð er góður,“ heyrðist fólk hrópa þegar konan var dregin upp úr rústunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert