„Ég hyggst ákæra fyrir hvert og eitt kynferðisbrot og hvern einasta dag sem konurnar voru í haldi. Allar þessar glæpsamlegu árásir og allar tilraunir hans til að myrða konurnar,“ segir Timothy McGinty, saksóknari í Cleveland í Ohio ríki í Bandaríkjunum, en hann fer með mál Ariels Castro, 52 ára atvinnulauss strætóbílstjóra sem sakaður er um að hafa haldið þremur konum föngum á heimili sínu í fjölda ára.
Hann segir brot Castros varða við dauðarefsingu. „Heimili Castros var hans einkafangelsi og pyntingarklefi,“ segir McGinty. „Þessi skelfilega grimmd og þær pyntingar sem fórnarlömbin þurftu að þola í áratug er ofar mannlegum skilningi.“
Castro er talinn hafa barið að minnsta kosti eina konuna þannig að hún missti fóstur.
Lillian Rodriguez, móðir Castros, ræddi stuttlega við fjölmiðla í Cleveland í gær. „Ég á veikan son sem gerði nokkuð sem er mjög alvarlegt. Ég þjáist mikið og ég bið um fyrirgefningu frá mæðrum kvennanna. Vonandi fyrirgefa ungu konurnar mér.“
Það hefur vakið mikla umræðu og spurningar hvernig standi á því að Castro tókst að leyna konunum þremur í allan þennan tíma. Nágrannar hans eru slegnir yfir því að þeir hafi ekki orðið varir við neitt misjafnt. Castro hefur verið lýst sem vingjarnlegum nágranna sem hélt sig að mestu út af fyrir sig.
Ricky Sanchez, kunningi hans, sem kom af og til á heimili hans, segist ekki hafa orðið var við neitt grunsamlegt. Þó hafi hann tekið eftir því að fjöldi læsinga var á útidyrum hússins og í eitt skiptið heyrði hann hljóð í kjallara.
„Ég spurði hann: Hvað er þetta? Hvaða hljóð er þetta?“ sagði Sanchez í samtali við AFP-fréttastofuna. „Ó, þetta eru bara hundarnir,“ segir Sanchez að Castro hafi svarað.