Fimmtán lík fundust í nótt í rústum verksmiðjubyggingarinnar sem hrundi fyrir 19 dögum í Dhaka í Bangladess. Tala látinna er komin upp í 1.125 og búist er við því að hún eigi enn eftir að hækka. Meira en 2.000 verkamönnum hefur verið bjargað en engar hafa þeir bætur fengið þrátt fyrir loforð um þær.
„Við höfum komið hingað tvo daga í röð en fáum ekkert og okkur er vísað frá. Það er ekkert hlustað á okkur,“ segir einn verkamanna sem bjargaðist. Annar segist hafa þurft að greiða fyrir alla sjúkrahúsreikninga sjálfur og fái þá ekki endurgreidda.
Stjórnvöld í Bangladess eru uggandi yfir fregnum af því að vestræn fatamerki ætli að færa framleiðslu sína annað í ljósi bágborinna aðstæðna verkafólks í Bangladess. Það yrði mikið högg fyrir þjóðina en um 80% af útflutningi Bangladess er fatnaður og um fjórar milljónir manna starfa í greininni.
Til að reyna róa fatamerkin vestrænu hafa stjórnvöld ákveðið að setja á fót nefnd sem falið verður að gera úttekt á fataverksmiðjum og húsnæði þeirra.