Lifði á fjórum kexkökum í rústunum

Ung kona sem lá 17 daga föst í rústum verksmiðjunnar sem hrundi í Bangladess lýsti lífsreynslu sinni fyrir fjölmiðlum í dag. Hún lifði á fjórum kexkökum og svo litlu vatni og bað til Allah um björgun. Alls hafa 1.127 lík verið dregin úr rústunum en formlegri leit var hætt í dag.

„Samstarfsfólk mitt var fast með mér. Einn þeirra grátbað um vatn, en ég gat ekki fært honum vatn. Hann dó síðar,“ sagði saumakonan Reshma Begum þegar hún tjáði sig við fjölmiðla á sjúkrahúsi í dag.

Björgun hennar á föstudag var sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpinu í Bangladess og vakti að vonum mikla athygli enda var lítil von um að fleiri fyndust á lífi þegar 17 dagar voru liðnir. „Ég át bara fjórar kexkökur og drakk vatn, ekkert annað. Ég hafði ekki trú á því að mér yrði bjargað en ég mundi alltaf eftir Allah og bað til hans um björgun,“ sagði Reshma Begum í dag.

Lögðu niður störf í dag og kröfðust betri kjara

Hundruðum fataverksmiðja var lokað um óákveðinn tíma í iðnaðarhverfinu Ashulia í útjaðri Dakka í dag vegna mótmæla yfir 1.100 verkafólks og aðstandenda fórnarlambanna í Rana Plaza. Formaður samtaka textíliðnaðarins í Bangladess sagði í dag að ákvörðunin hafi verið tekin „til að tryggja öryggi verksmiðjanna“.

Um 80% starfsmanna í verksmiðjunum gengu út frá vinnu sinni í dag til að krefjast betri kjara. Þá var þess einnig krafist að eigandi Rana Plaza verði dæmdur til dauða. Í Ashulia iðnaðarhverfinu eru um 500 fataverksmiðjur þar sem saumaður er fatnaður fyrir risaverslanir á Vesturlöndum, s.s. Walmart, H&M, Tesco og Carrefour.

Sænski tískurisinn H&M tilkynnti í dag að þar á bæ hyggist menn skrifa undir viljayfirlýsingu við alþjóðleg samtök verkafólks um að bæta öryggismálin í textílverksmiðjum sínum í Bangladess.

„Viljum ekki að Bangladess sé land þræla“

Harmleikurinn í Rana Plaza varpaði kastljósinu á bágar öryggiskröfur og slæman aðbúnað í textíliðnaði Bangladess og hefur í kjölfarið aukinn þrýstingur verið settur á vestræn fyrirtæki um að bæta úr sínum málum og láta siðferðislega ábyrgð ekki víkja fyrir gróðamarkmiðum.

Nóbelsverðlaunahafinn Muhammad Yunus, sem kom á fót frumkvöðlastarfsemi við veitingu smálána til að gera löndum sínum í Bangladess kleift að koma stofna lítil fyrirtæki, hvatti í dag bæði verksmiðjueigendur og vestræn stórfyrirtæki til að tryggja að verkafólk fái greidd mannsæmandi kjör.

„Við viljum ekki að Bangladess sé land þræla. Við viljum að Bangladess sé land nútímakvenna. Við viljum tryggja að þær geti lifað á sanngjörnum launum.“

Textíliðnaðurinn í Bangladess er sá annar umfangsmesti í heiminum. Hann velti um 20 milljörðum dala á síðasta ári og stóð undir 80% af útflutningi landsins. Um þrjár milljónir verkafólks starfar í iðnaðinum, stór hluti þeirra saumakonur eins og Reshma Begum, sem fá innan við 5000 krónur greiddar í mánaðarlaun.

Saumakonan Reshma Begum lifði af 17 daga prísund í rústum …
Saumakonan Reshma Begum lifði af 17 daga prísund í rústum Rana Plaza verksmiðjunnar. AFP
Saumakonan Reshma Begum lifði af 17 daga prísund í rústum …
Saumakonan Reshma Begum lifði af 17 daga prísund í rústum Rana Plaza verksmiðjunnar. AFP
Bangladeski herinn hætti í dag formlegri leit að líkum í …
Bangladeski herinn hætti í dag formlegri leit að líkum í rústum Rana Plaza byggingarinnar. A.m.k. 1.127 létu þar lífið. AFP
Hreinsunarstarf stendur nú yfir í rústum Rana Plaza.
Hreinsunarstarf stendur nú yfir í rústum Rana Plaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert