Óstaðfestar fregnir um mannát í Sýrlandi

Sýrlenskir hermenn náðu í dag tökum á þorpinu Dumayna, um …
Sýrlenskir hermenn náðu í dag tökum á þorpinu Dumayna, um 7 km norður af borginni Qusay sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna. AFP

Myndskeið hefur nú dúkkað upp á YouTube sem sagt er sýna sýrlenskan uppreisnarmann skera hjartað úr hermanni stjórnarhers Bashar al-Assads Sýrlandsforseta, og leggja sér það til munns.

„Við sverjum við Guð að við munum éta hjarta ykkur og lifur, hermenn hundsins Bashar,“ segir maðurinn í mynd um leið og hann beygir sig yfir óskýrt lík og sker úr því hjartað. Maðurinn segist vera einn af „hetjum Baba Amr“ með vísan í borgina Homs, sem verið hefur helsta vígi uppreisnarmanna.

Maðurinn, sem sagður er einn af uppreisnarmönnum Frjálsa Sýrlandshersins, rís á fætur yfir líkinu með hníf í annarri hönd og hjartað í hinni. Hann virðist svo leggja sér hjartað til munns, á sömu stundu og upptökunni er hætt. 

Myndskeiðið er af slæmum gæðum og hefur ekki reynst unnt að sannreyna uppruna þess frekar en með flestar annað sem heyrist frá átökunum í Sýrlandi.  Sameinuðu þjóðirnar segjast ekki geta tekið saman traustar upplýsingar um mannfall í landinu og fréttamönnum er gert afar erfitt fyrir að komast á milli staða og greina frá atburðum.

Í dag sagði þýska dagblaðið Tagesspiegel frá því að þýskur blaðamaður, Armin Wertz, hafi verið tekinn höndum af lögreglu í borginni Aleppo. Hann mun hafa sent hjálparbeiðni með sms skilaboðum til vina sinna og samstarfsmanna í Þýskalandi.

Í frétt Tagesspiegel segir óljóst af hvaða sökum Wertz sé í haldi, en hann hafi farið inn í landið án þess að hafa sérstaka vegabréfsáritun sem blaðamaður. Þýska utanríkisráðuneytið vinnur að því að fá staðfest að maðurinn sé í haldi.

Sýrlenskir hermenn náðu í dag tökum á þorpinu Dumayna, um …
Sýrlenskir hermenn náðu í dag tökum á þorpinu Dumayna, um 7 km norður af borginni Qusay sem er undir yfirráðum uppreisnarmanna. AFP
Uppreisnarmenn í sýrlensku borginni Aleppo.
Uppreisnarmenn í sýrlensku borginni Aleppo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert