Bræður Ariel Castro, sem hefur verið ákærður fyrir að hafa rænt og nauðgað þremur konum ítrekað er hann hélt þeim föngnum í tíu ár, segja að hann sé skrímsli og þeir vonist til þess að hann eigi eftir að rotna í fangelsi. CNN birti í dag viðtal við þá Onil Castro og Pedro Castro.
„Ég vonast jafnvel til þess að þeir taki hann ekki af lífi,“ segir Onil Castro. „Ég vil að hann kveljist í fangelsi,“ bætir hann við. „Ég er sama sinnis,“ segir Pedro Castro.
Onil og Pedro voru handteknir skömmu á eftir Ariel á mánudag en þeim var síðar sleppt úr haldi þar sem ekkert virtist benda til þess að þeir hafi komið að glæpum bróður síns.
Líkt og fram hefur komið hélt Ariel Castro konunum á heimili sínu í Cleveland í Ohio í áratug. Auk þeirra þriggja slapp dóttir einnar konunnar úr haldi á mánudag.
Í viðtalinu við CNN segjast þeir bræður ekki hafa haft hugmynd um voðaverk bróður síns. Þeir hefðu ekki hikað við að tilkynna glæpinn til lögreglu því í svona málum skipti blóðbönd engu.
Að þeirra sögn fóru þeir aldrei í þann hluta hússins sem Ariel hélt konunum föngnum. Til þess að koma í veg fyrir að þær fyndust var hann með gluggatjöldin dregin fyrir og útvarp og sjónvarp í gangi til þess að koma í veg fyrir að hljóð bærust út úr prísundinni.
Þrátt fyrir að hafa verið haldið aðskildum í haldi lögreglu hitti Onil hann að minnsta kosti einu sinni. Að sögn Onil sagði Ariel við hann að þeir myndu aldrei hittast aftur og að hann elskaði hann.
Þeir Onil og Pedro eru í felum ásamt móður sinni en að þeirra sögn hefur fólk staðið fyrir utan heimili þeirra og hent grjóti í hús þeirra. Eins hafi þeir fengið líflátshótanir.
Amanda Berry, sem er 27 ára, Gina DeJesus, 23 ára og Michelle Knight, 32 ára, voru frelsaðar fyrir viku síðan.
Berry og DeJesus voru aðeins 16 og 14 ára þegar þær hurfu árið 2003. Knight hvarf árið áður, þá 22 ára gömul.
Ariel Castro er lýst sem vinalegum, fyrrverandi skólabílstjóra og tónlistarmanni. Hann var vinsæll meðal barna í götunni og spilaði m.a. í salsasveitum með náfrænda DeJesus. Einnig tók hann þátt í leitinni að Ginu, og var í reynd talinn fjölskylduvinur.