Leið aldrei vel í návist Castro

Ariel Castro.
Ariel Castro. HO

Fyrrverandi tengdadóttir Ariel Castro, sem er ákærður fyrir að hafa haldið þremur ungum konum föngnum í um áratug á heimili sínu í Cleveland í Bandaríkjunum, segir að sér hafi aldrei liðið vel nálægt tengdaföður sínum. Hún hafi heyrt margar hræðilegar sögur um hann frá fyrrverandi eiginmanni sínum og tengdamóður.

Monica Stephens var gift Anthony, syni Castro. „Mig langaði aldrei að kynnast honum persónulega eða mjög náið,“ sagði Stephens í viðtali við Piers Morgan á CNN í gærkvöldi. „Bæði fyrrverandi eiginmaður minn og tengdamóðir höfðu sagt mér sögur af því hvernig hann gekk í skrokk á þeim, læsti þau inni í húsinu og kom fram við þau eins og þau væru í gíslingu, svo mig langaði aldrei að kynnast honum.“

Hún sagði að Castro hefði byrjað að misþyrma syni sínum þegar hann var barn og að hann hefði barið eiginkonu sína, Grimildu Figueroa, eftir að hún þurfti að gangast undir aðgerð á heila. „Hann hélt áfram að berja hana. Hann lamdi hana í höfuðið. Hann annað hvort sparkaði í hana eða lamdi með blýröri. Ég held ég hafi aldrei náð að skilja fullkomlega hversu hræðilegar þessar sögur voru af honum.“ Castro hafi þar að auki beitt fjölskyldu sína miklu andlegu ofbeldi.

Árið 2005 var Castro ásakaður um ítrekað ofbeldi í garð Figueroa, m.a. að hafa nefbrotið hana, brotið rifbein í henni og hótað að myrða hana. 

Á meðan Stephens var gift Anthony Castro heimsóttu þau föður hans einu sinni. Hún sagði við Morgan að hún hefði kviðið heimsókninni, eftir að hún heyrði að Castro væri gagntekinn af því að læsa hluti inni í herbergjum heimilisins. „Ég held að við höfum ekki verið þarna mikið lengur en í 20 mínútur. Þetta var ekki eitthvað sem við lögðum í vana okkar að gera. Ég held að þetta hafi verið eina skiptið sem ég heimsótti hann. Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds alltaf þegar ég hitti hann en ég hélt það væri bara út af mínu persónulega áliti á honum,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert