Borgarstjóri sagður hafa reykt krakk

Rob Ford er borgarstjóri Toronto í Kanada. Mynd fengin af …
Rob Ford er borgarstjóri Toronto í Kanada. Mynd fengin af heimasíðu borgaryfirvalda í Toronto.

Kanadíska dagblaðið Toronto Star fullyrðir að það hafi séð myndskeið sem sýni Rob Ford, borgarstjóra Toronto, reykja krakk. Blaðið segist hins vegar ekki geta sannreynt sannleiksgildi þess. Ford vísar þessum ásökunum á bug.

Toronto Star segir að ónefndur heimildarmaður hafi sýnt tveimur blaðamönnum myndskeiðið. Heimildarmaðurinn gerði tilraun til að fá blaðið til að kaupa myndskeiðið en blaðið tekur fram að það hafi ekki greitt fyrir það.

Frétti Toronto Star birtist skömmu eftir að bandarísk fréttasíða hélt því sama fram um borgarstjórann, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins (BBC).

Ford vísar þessu alfarið á bug og segir ásakanirnar fáránlegar.

Dennis Morris, lögmaður Fords, sagði við forsvarsmenn Toronto Star að það væri ómögulegt að sjá hvað viðkomandi einstaklingur væri að gera í myndskeiðinu. „Hvernig getur þú sagt til um það hvað manneskjan er í raun og vera að gera eða reykja,“ segir Morris.

Talið er að myndskeiðið hafi verið tekið upp á snjallsíma. Blaðamenn Toronto Star fengu að sjá það 3. maí eftir að hafa hitt heimildarmanninn.

Toronto Star heldur því fram að í myndskeiðinu megi sjá Ford sitja í stól í vel upplýstu herbergi og anda að sér reyk að því er virðist vera krakkpípu úr gleri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert