Nýnasista vísað úr þingsal

Panagiotis Iliopoulos
Panagiotis Iliopoulos AFP

Grískum þingmanni var vísað út úr þingsal í dag þegar hann heilsaði að nasistasið og hrópaði nasistaslagorð í þingsalnum.

Panagiotis Iliopoulos er þingmaður nýnasistaflokksins Gullin dögun. Þegar leiðtogi vinstri flokksins Syriza fór í ræðustól lét Iliopoulos öllum illum látum og heiðraði Hitler. Þegar hann var fjarlægður úr salnum kallaði hann aðra þingmenn geitur og sagði þá viðurstyggð.

Gullin dögun er vaxandi afl í grískum stjórnmálum og er með 18 þingmenn á gríska þinginu en rúmlega tuttugu ár eru síðan hreyfingin var stofnuð. Liðsmenn samtakanna fara um einkennisklæddir, hóta innflytjendum og ráðast á þá á götum úti og ryðjast jafnvel inn á heimili.

Stofnandi flokksins heitir Nikolaos Mikhaloliakos. Hann sat í fangelsi á áttunda áratugnum fyrir líkamsárás og ólöglega eign skotvopna og sprengiefnis. Í fangelsinu kynntist hann liðsmönnum herforingjastjórnarinnar, sem var við völd á Grikklandi frá 1967 til 1974. Þegar hann var látinn laus hóf hann útgáfu tímarits þar sem hann lofsöng Adolf Hitler og harmaði að Grikkir skyldu ekki hafa veitt öxulveldunum lið í heimsstyrjöldinni síðari. Þegar Mikhaloliakos náði kjöri í borgarstjórnarkosningum í Aþenu 2010 heilsaði hann með fasistakveðju þegar hann kom til starfa.

Gullin dögun hefur haslað sér völl þar sem tómarúm skapast í kreppunni. Samtökin gefa mat – aðeins Grikkjum. Liðsmenn þeirra gefa einnig blóð – aðeins Grikkjum. Nú er komið nýtt slagorð: Atvinna aðeins handa Grikkjum. Félagar í Gullinni dögun fara á milli vinnustaða, telja útlendingana sem vinna þar og birta niðurstöðuna. Síðan hvetja þeir gríska atvinnurekendur til að ráða Grikki í staðinn.

Fullyrt er að Gullin dögun hafi umtalsverð ítök í grísku lögreglunni. Fram hefur komið að í hverfum Aþenu þar sem lögreglumenn eru fjölmennir hafi Gullin dögun fengið 19-24% atkvæða. Elias Panagiotaros, þingmaður Gullinnar dögunar, fullyrðir að 50-60% lögreglunnar séu á bandi hreyfingarinnar.

Samtökin sjá um „öryggisþjónustu“ í samráði við stjórnvöld, skjóta innflytjendum skelk í bringu, vernda grískar verslanir og sjá um nágrannavakt.

Panagiotis Iliopoulos var vísað úr þingsal í dag
Panagiotis Iliopoulos var vísað úr þingsal í dag AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert