Lögmenn stofnanda PIP brjóstapúðaframleiðandans, Jean-Claude Mas, segja að hann hafi ekki brotið af sér en fyrirtækið seldi gallaða brjóstapúða og hafa saksóknarar farið fram á fjögurra ára fangelsisdóm yfir Mas.
Aðalmeðferð í máli Mas lauk í frönsku borginni Marseille í dag en Claude Veillard, dómari, segir að dómur falli í málinu þann 10. desember nk.
Verjendur Mas fóru fram á að hann fengi vægari refsingu heldur en saksóknarar hafa farið fram á en um fimm þúsund konur taka þátt í hópmálssókn gegn honum.
Mas stofnaði PIP (Poly Implant Prothese) árið 1991 og er talið að um 300.000 konur í 65 löndum, m.a. Íslandi, hafi fengið púðana. PIP-púðarnir eru tvisvar sinnum líklegri en aðrir til að rofna.
Saksóknarar fara einnig fram á að Mas verði gert að greiða 100 þúsund evrur í sekt og honum verði bannað að starfa í heilbrigðisgeiranum eða að reka fyrirtæki.
Auk Mas eru fjórir yfirmenn hjá PIP ákærðir í málinu sem er eitt það stærsta í réttarsögu Frakklands.