Óttast að tala látinna muni hækka

„Þetta var meiriháttar skýstrókur; sá sem gekk hér yfir var gríðarlega stór,“ sagði Mary Fallin, ríkisstjóri Oklahoma, í kjölfar skýstróksins sem olli eyðileggingu og varð tæplega 100 að bana í gær.

„Við vitum að margir hafa slasast. Við vitum að við höfum glatað gríðarlega miklu magni af mannvirkjum í okkar samfélagi og í ríkinu,“ sagði ríkisstjórinn.

Mesta tjónið var í Moore, sem er úthverfi Oklahoma-borgar. Þar jöfnuðust heilu hverfin við jörðu. A.m.k. 51 hefur látist, þar af 20 börn, en búist er við að tala látinna muni hækka. Meirihluti barnanna sem lést er yngri en 12 ára.

Lögreglustjórinn í Moore hefur hvatt íbúa til að yfirgefa svæðið. Íbúafjöldi í Moore er um 55.000.

Skýstrókurinn teygði sig yfir þrjá kílómetra og mældist vindhraðinn um 90 metrar á sekúndu.

Ríkisstjórinn segir að menn verði að gæta að mörgum öryggisþáttum, en hann bendir á að rafmagnslínur hafi slitnað, gasleiðslur farið í sundur og margt fleira sem menn verði að hafa í huga við björgunarstörf.

CNN segir að búið sé að flytja um 145 einstaklinga á sjúkrahús.

Fréttamenn hafa séð björgunarsveitarmenn draga börn úr rústum grunnskóla, en yngsta barnið var níu ára gamalt. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir neyðarástandi í Oklahoma og fyrirskipaði að ríkið muni hljóta alríkisaðstoð.

Bandaríska veðurstofan segir að bráðabirgðatölur bendi til þess að skýstrókurinn hafi vera af stærðinni EF-4, sem þýðir að vindhraðinn hefur náð um 267-322 km hraða á klst. Það er sé meiri vindhraði en mælist í fimmta stigs fellibyl.

„Ég hafði ekki hugmynd um hann væri á leiðinni,“ sagði starfsmaður hesthúss í samtali við fréttamenn. Hann komst lifandi undan skýstróknum með því að leita skjóls í einum af básum hesthússins.

Skýstrókurinn fylgdi í grófum dráttum sömu leið og skýstrókur sem gekk yfir svæðið í maí árið 1999. Þá létust 44, mörg hundruð slösuðust og mörg þúsund heimili eyðilögðust.

Það er ekki óvanalegt að skýstrókar myndist á sléttunum í Oklahoma. Að þessu sinni fór strókurinn yfir þéttbýli og því óttast menn að tala látinna muni hækka.

Víða er jarðvegur mjög harður á þessu svæði og þar af leiðandi eru fá hús með kjallara sem fólk getur leitað í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert