Tæplega 100 látnir í Oklahoma

Að minnsta kosti 91 er látinn, þar af 20 börn, eftir að öflugur skýstrókur gekk yfir úthverfi Oklahoma í Bandaríkjunum og olli þar mikilli eyðileggingu.

Eyðileggingin varð mest í Moore, sem er rétt sunnan við Oklahoma-borg. Þar jöfnuðust heilu hverfin við jörðu og skólar eyðilögðust. Þar mældist vindhraðinn vera um 90 metrar á sekúndu.

Um 120 hafa verið fluttir á sjúkrahús, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í Oklahoma. Hann hefur fyrirskipað alríkisyfirvöldum að taka þátt í björgunaraðgerðum á vettvangi sem hafa staðið yfir í alla nótt.

Um 55.000 manns búa í Moore. Skýstrókurinn fór þar yfir í gærkvöldi og hann olli eyðileggingu í um 45 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert