Yfirvöld í Oklahoma í Bandaríkjunum segja að starfi björgunarsveita muni brátt ljúka. Á þriðja tug manns lést eftir að öflugur skýstrókur gekk yfir ríkið.
Slökkviliðssstjórinn Gary Bird segist geta sagt með 98% vissu að hvorki lík né fólk á lífi muni finnast í húsarústunum, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Sérfræðingar segja að skýstrókurinn hafi verið efsta stigs hvirfilbylur. Vindhraðinn náði að minnsta kosti 320 km hraða á klst. og lagði strókurinn stórt svæði í Moore, sem er úthverfi Oklahoma-borgar, í rúst.
Mary Fallin, ríkisstjóri Oklahoma, segir mögulegt að tala látinna muni hækka en hún er nú í 24, en hún segir að í einhverjum tilfella hafi lík verið flutt beint á útfararstofur. Alls létust níu börn í óveðrinu.
Í gær töldu menn að 51 hefði látið lífið. Dánardómstjóri í ríkinu segir hins vegar að menn hafi tvítalið sum lík í ringulreiðinni sem skapaðist.
Slökkviliðsstjórinn segir að hvorki lík né fólk á lífi hafi fundist í húsarústunum síðan á mánudagskvöld.
Hann segir að björgunarsveitarmenn muni til öryggis leita þrisvar sinnum á hverjum stað.