Þrjú fórust á Dhaulagiri

Dhaulagiri
Dhaulagiri Af vef Wikipedia

Tveir fjallgöngumenn, 67 ára gömul japönsk kona og fimmtugur Spánverji, fórust á Dhaulagiri fjalli í Nepal ásamt innlendum leiðsögumanni sínum. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan á föstudag, samkvæmt upplýsingum frá leiðangursstjóra þeirra.

Þau Chizuko Kono, Juanjo Garra og Dawa Sherpa reyndu að komast upp á topp á þessu sjöunda hæsta fjalli heims á föstudag. Garra féll og ökklabrotnaði en ekki er vitað á þessari stundu hvað gerðist fyrir hin tvö. Alls var 21 í leiðangri þeirra á Dhaulagiri sem þykir eitt erfiðasta fjall í heimi.

Að sögn leiðangursstjórans gat Garra sig hvergi hrært eftir brotið og beið leiðsögumaður með honum yfir nóttina þar sem slysið varð svo seint að ekki var mögulegt fyrir þyrlu að koma á vettvang. Ekki tókst hins vegar að koma honum í þyrluna daginn eftir þar sem hann var í svo mikilli hæð. Leiðsögumaður hans er nú á sjúkrahúsi þar sem hann er að jafna sig. Kono hvarf ásamt leiðsögumanni sínum Dawa Sherpa í 7.700 metra hæð og er ekkert vitað um afdrif þeirra.

Hvergi jafn mörg banaslys

Dhaulagiri var einn af þeim tindum sem Spánverjinn Garra stefndi á en hann ætlaði sér að klífa á fjórtán hæstu fjöll í heimi í leiðangrinum. Dhaulagiri er  8.167 metrar að hæð og á engum tindi heims verða jafn mörg banaslys og þar miðað við þá sem reyna að klífa tindinn. 

Í maí á hverju ári streyma hundruð fjallgöngumanna til Himalaya en í þessum mánuði eru aðstæður bestar til fjallgöngu þar.

Átta hafa látist á Everest það sem af er tímabilinu í ár og fimm er saknað á Kanchenjunga, þriðja hæsta tindi heims. Yfir þrjú hundruð hafa farist á Everest frá því Nýsjálendingurinn Edmund Hillary og Sérpinn Tenzing Norgay urðu fyrstir manna til að klífa tind Everest fyrir sextíu árum.

Fjöldi þeirra sem freista þess að ganga á Everest hefur aukist mjög á síðustu árum. Í ár hafa um 500 manns komist á tindinn, þeirra á meðal áttræður Japani, sem varð elsti maðurinn til að sigra Everest, indversk kona sem missti fót í slysi fyrir tveimur árum og fyrstu Everest-fararnir úr röðum kvenna í Sádi-Arabíu og Pakistan.

Tveir Íslendingar klifu tindinn fyrr í mánuðinum, þeir Ingólfur Geir Gissurarson og Leifur Örn Svavarsson. Leifur Örn er fyrsti Íslendingurinn sem klifið hefur tind Everest norðanmegin í fjallinu en sú leið er mun fáfarnari og erfiðari en sú sem venjulega er farin.

Everest er 8.848 metra hátt og nefnt eftir breska landmælingamanninum Sir George Everest (1790-1866). Gerðar höfðu verið átta tilraunir til að klífa tindinn þegar þeim Hillary og Tenzing tókst það loks fyrir sextíu árum. Þeir voru aðeins í fimmtán mínútur á tindinum vegna skorts á súrefni. Flestir Everest-farar nota súrefniskúta en tveir göngugarpar, Reinhold Messner og Peter Habeler, urðu fyrstir til að klífa tindinn án súrefnisbirgða í maí 1978.

Upplýsingar um Dhaulagiri á Wikipedia

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert