Mark Bridger, fyrrum starfsmaður í sláturhúsi og lífvörður sem var fundinn sekur um að hafa numið á brott og myrt April Jones, fimm ára gamla breska stúlku, hóf fangelsisvist sína til lífstíðar í dag. Hann neitar ennþá að gefa upp hvað hann gerði við lík stúlkunnar. Fjallað er um þetta mál í frétt á TheGuardian í kvöld.
Mark Bridger var fundinn sekur eftir fimm vikna réttarhöld yfir honum og foreldrar stúlkunnar hafa enn ekki fengið svör um örlög hennar. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að Bridger hefði misnotað stúlkuna kynferðislega áður en hann hafi myrt hana í október síðastliðnum.
Móðir stúlkunnar, Carol, sagði að sér væri létt eftir að Bridger var kominn á bak við lás og slá og sagði: „Við vitum enn ekki hvar hún er og það mun alltaf vera sársaukafullt fyrir okkur að takast á við.“
Á meðan réttarhöldunum stóð grétu sumir kviðdómendur þegar yfirlýsing móður stúlkunnar var lesin upp en þar sagði hún að hún myndi ásaka sjálfa sig það sem eftir lifði ævi hennar fyrir að hafa leyft dóttur sinni að leika sér úti við þetta örlagaríka kvöld.
Jones-hjónin höfðu fylgst með réttarhöldunum í öðru húsnæði en fóru inn í réttarsalinn til að verða vitni að því þegar dómur yrði kveðinn upp yfir Bridger. Þau virtust yfirveguð þegar honum var tjáð að hann myndi ekki ganga frjáls maður aftur og héldust í hendur þegar hann var færður úr dómsalnum
Þrátt fyrir sex mánaða leit - þá umfangsmestu í breskri lögreglusögu - hefur lík Apríl ekki enn fundist. Dómarinn sagði að fjölskyldan myndi eiga í miklum vandræðum með að halda áfram með líf sitt. „Án vitneskjunnar um hvað raunverulega gerðist munu foreldrar stúlkunnar sennilega aldrei komast yfir þá sorg sem þessum missi fylgir,“ sagði hann.
Við dómsuppkvaðninguna var því velt upp hvort menn eins og Bridger, sem eiga heilu söfnin af myndefni af misnotkun barna, leiðist frekar út í að fremja morð fyrir tilverknað myndefnisins. Við réttarhöldin kom einnig fram að Bridger hefði stundað að skoða efni af misnotkun barna á netinu í gegnum vefmyndavélar.
April var brottnumin þegar hún var að leik við heimili hennar í Machynlleth í Wales þann 1. október 2012. Bridger, sem bjó í nærliggjandi þorpi, áttaði sig ekki á því að sjö ára vinur April tók eftir því þegar hún settist upp í Land Rover jeppa eins og hann á.
Við réttarhöldin hélt Bridger því fram að hann hafi óvart keyrt á April og því hjálpað henni inn í bílinn en hefði síðan steingleymt því hvað hann hefði gert við líkið.
Kviðdómur tók sögu hans ekki trúanlega og sakfelldi hann fyrir mannrán, morð og fyrir að sundurlima og losa sig við lík stúlkunnar. Meðal ljósmynda sem fundust í fórum hans voru myndir af April sem Bridger kvaðst hafa safnað af samskiptavefnum Facebook en í orðum kviðdómsins kom fram að kviðdómendur tryðu því ekki að hann hafi með svo skipulögðum hætti sigtað stúlkuna út.
Bridger er 48 fanginn í Bretlandi sem dæmdur er til fangelsisvistar til fullrar lífstíðar.