Um þúsund handteknir í mótmælunum

Lögreglan hefur hörfað frá Taksim-torgi í Istanbúl í Tyrklandi en hafa í dag safnast saman þúsundir manna til að mótmæla stjórnvöldum og hörku lögreglunnar gagnvart mótmælendum. Tæplega þúsund mótmælendur hafa verið handteknir. Mótmælin hafa nú breiðst út til annarra borga landsins.

Í vikunni fór að bera á mótmælum vegna fyrirætlana stjórnvalda að reisa verslunarmiðstöð í almenningsgarði sem telur um 600 tré. Mótmælin eru hins vegar hætt að snúast um garðinn því nú er sjónum beint að íhaldssemi stjórnvalda sem hafa smám saman verið að tengja stjórnmál og trúmál sterkari böndum. Það hugnast borgurunum ekki.

Talið er líklegt að mótmælin munu halda fram næstu daga.

„Þetta er rétt að byrja,“ segir 19 ára laganemi sem var að mótmæla í dag. „Hér ræður enn ríkjum forsætisráðherra sem lítur á okkur sem lömb sín og sig sem soldán.“

Frétt mbl.is: Táragas streymdi inn á skrifstofur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert