Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði samfélagsmiðla vera samfélagsmein og að Twitter væri „öfgafull útgáfa af lygum“. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Forsætisráðherrann sagði jafnframt að mótmælendur hefðu rifið upp gangstéttarhellur og brotið rúður verslana. „Er þetta lýðræði?“ sagði forsætisráðherrann.
Mótmælin, sem staðið hafa síðan í fyrradag, hófust vegna áforma um að breyta garðinum Taksim Gezi. Borgarstjóri Istanbúl, Kadir Topbas, sagði borgaryfirvöld hafa lært sína lexíu og myndu hafa aukið samráð við borgarbúa í framtíðinni. Mótmælendur telja aðferðir yfirvalda við breytingarnar hins vegar bera vott um einræðistilburði.