Mótmælin, sem staðið hafa yfir í Tyrklandi síðan á föstudag og hófust vegna óvinsælla byggingarframkvæmda en breyttust síðan í mótmæli gegn framgöngu lögreglu og stjórnvöldum, virðast ætla að halda áfram í dag samkvæmt frétt AFP. Rólegra hafi þó verið á Taksim-torgi í Istanbúl í morgun, þar sem mótmælin hafa einkum farið fram, en undanfarna morgna.
Fram kemur í fréttinni að lögregla hafi beitt táragasi og öflugum vatnsbyssum í nótt gegn mótmælendum þegar þeir reyndu að komast að skrifstofum forsætisráðherra Tyrklands, Receps Tayyips Erdogans, í höfuðborg landsins, Ankara. Skilti og annar búnaður mótmælenda hafi enn verið á Taksim-torgi í morgun sem þykir benda til þess að til standi að halda mótmælunum áfram í dag. Meðal þess sem mótmælendur hafa gert er að berja potta og pönnur til þess að leggja áherslu á mótmælin.
Stjórnvöld hafa farið hörðum orðum um mótmælin og lét Erdogan meðal annars þau ummæli falla að mótmælendur væru ekki annað en skemmdarvargar. Til stendur að forsætisráðherrann fari í dag í fjögurra daga opinbera heimsókn til Alsírs, Túnis og Marokkós og hefur hann ekki aflýst henni vegna mótmælanna samkvæmt fréttinni.