Tyrkneski forsætisráðherrann vill ekki heyra minnst á „tyrkneska vorið“ í samhengi við mótmælin sem þar hafa nú staðið yfir í fjóra daga. Recep Tayyip Erdogan hefur verið forsætisráðherra í áratug og eru mótmælin nú þau mestu frá því að hann tók við starfi.
Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í Ankara í dag. Hefur lögreglan ítrekað gripið til táragass og vatns til að sundra mótmælendahópnum. Enn er mótmælt í mörgum borgum landsins.
Erdogan er gagnrýndur fyrir að hafa stuðlað að auknum tengslum íslams og stjórnmálanna. Hann neitar því og minnir á að hann hafi verið lýðræðislega kjörinn forsætisráðherra.
Mannréttindasamtök segja að mörg hundruð manns hafi særst í átökum við lögreglu.
Forsætisráðherrann hvatti í dag mótmælendur til að koma óánægju sinni á framfæri með friðsömum hætti. Hann hefur kallað mótmælendur skemmdarvarga.