Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir að ekki verði hætt við fyrirhugaðar framkvæmdir í almenningsgarði í Istanbúl þrátt fyrir fjölmenn mótmæli víða um land.
Erdogan segir að hluti mótmælenda séu „öfgamenn“. Þá segir hann að erlendir ríkisborgarar hafi verið handteknir í tengslum við óeirðirnar sem hafa brotist út.
Forsætisráðherrann, sem hefur verið á ferðalagi í Norður-Afríku, er væntanlegur til Tyrklands í dag, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Boðað hefur verið til frekari mótmæla í landinu í kjölfar ummæla Erdogans. Mótmælendurnir vonuðust til að hann myndi rétta fram sáttahönd og væri reiðubúinn að sættast á málamiðlum.
Fram kemur á vef BBC, að fréttaskýrendur telji aftur á móti að ummæli forsætisráðherrans muni virka sem olía á eldinn. Ummælin hafa einnig haft áhrif á fjárfesta en hlutabréfaverð í tyrknesku kauphöllinni lækkaði um tæp 5% í kjölfar yfirlýsingar Erdogans.
Upprunalega hófust mótmælin í síðustu viku vegna fyrirætlana stjórnvalda í Istanbúl um byggingu verslunarmiðstöðvar í Gezi-garðinum sem er nálægt Taksim-torgi. Eftir harkaleg viðbrögð lögreglu jukust mótmælin og fóru að beinast að tyrkneskum stjórnvöldum vegna íhaldssemi þeirra og aukinna tengsla tyrkneska stjórnkerfisins og íslams.