Kviðdómendur hafa ákært Ariel Castro fyrir nauðgun og mannrán. Castro er sakaður um að hafa haldið þremur konum föngnum á heimili sínu í Cleveland í Ohio í um áratug. Ákæruliðirnir á hendur honum eru 329 talsins.
Þar af eru 139 liðir vegna nauðgunar og 177 vegna mannráns, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.
Castro, sem er 52 ára gamall, er jafnframt ákærður fyrir manndráp með því að hafa framkallað fósturlát hjá einni kvennanna.
Konurnar sem fundust á heimili hans heita Michelle Knight, sem er 32 ára, Amanda Berry, sem er 27 ára og hin 23 ára gamla Gina DeJesus.
Castro var í síðasta mánuði ákærður fyrir nauðgun í þremur liðum og mannrán í fjórum liðum, en þar á meðal er sex ára gömul stúlka sem hann eignaðist með Berry.
Honum verður birt ákæran með formlegum hætti í næstu viku. Þá verður jafnframt útnefndur dómari sem mun stýra réttarhöldunum að sögn saksóknara.
Verjendur Castros segja að hann muni lýsa fram sakleysi sínu gagnvart öllum ákæruliðunum.
Hann situr nú í gæsluvarðhaldi. Hann verður að greiða átta milljónir dala vilji hann losna gegn greiðslu tryggingu.