Ungir Tyrkir krefjast frelsis

Stór hluti þeirra sem taka þátt í mótmælunum sem geisað hafa í Tyrklandi undanfarnar vikur er ungt fólk um tvítugt. Þessi kynslóð ungs fólks var kölluð „kapítalisma-kynslóðin“ í tyrkneskum fjölmiðlum en hún ólst að mestu leyti upp í efnahags uppsveiflunni sem átti sér stað í landinu í upphafi 10. áratugar síðustu aldar. 

Mótmælin eiga upphaf sitt að rekja til fjölda umdeildra ákvarðana forsætisráðherra landsins, Recep Tayyip Erdogan, sem þykir helst til íhaldssamur. Meðal þeirra ákvarðana var meðal annars að sú að hann gaf leyfi til byggingaframkvæmda í almenningsgarði í höfuðborginni Ankara.

Önnur óvinsæl ákvörðun var sú að banna áfengissölu í landinu eftir miðnætti. Ummæli Erdogans í kjölfar þeirrar ákvörðunar um að þeir sem drykkju áfengi væru alkóhólistar féll ungum íbúum landsins ekki í geð, sem mótmæla frelsisskerðingum Erdogans harkalega. 

„Ég er fyrst og fremst að berjast fyrir auknu frelsi og gegn einræðistilburðum forsætisráðherrans,“ segir ungur mótmælandi að nafni Ali við fréttastofu AFP. Hann vill ekki láta fulls nafns síns getið af ótta við mögulegar afleiðingar. 

Niðurstöður könnunnar sem Bigli Háskólinn í Istanbúl gerði nýverið meðal mótmælenda benda til þess að 92% mótmælenda eru að berjast gegn einræðistilburðum forsætisráðherrans og óhóflegri valdbeitingu lögreglunnar. Lögreglan hefur beitt táragasi og vatnsbyssum gegn mótmælendum en alls hafa þrír misst lífið í mótmælunum, tveir ungir piltar og einn lögregluþjónn. Að auki hafa þúsundir slasast.

Fjölmiðlar í Tyrklandi hafa undanfarna daga hrósað ungu „kapítalista-kynslóðinni“ fyrir þátttöku hennar í mótmælunum og segir í leiðara eins blaðsins: „Bravó krakkar, þið hafið sýnt að frjáls viðskipti eru ekki nóg. Fullkomið athafnafrelsi verður að fylgja.“ 

Mótmæli í Ankara, höfuðborg Tyrklands
Mótmæli í Ankara, höfuðborg Tyrklands AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert