Hollande: „Evrukrísan er liðin hjá“

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur lýst því opinberlega yfir að skuldavandinn á evrusvæðinu, sem Evrópuríki hafa glímt við undanfarin fjögur ár, sé liðinn hjá.

„Það sem þið verðið að skilja hér í Japan er að neyðarástandið í Evrópu er liðið hjá,“ sagði Hollande á ráðstefnu með leiðtogum í japönsku atvinnulífi, en forsetinn er nú í opinberri heimsókn í Asíu.

Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins en þar er bent á að stór hluti Evrópu glímir við mikið atvinnuleysi og efnahagssamdrátt.

Í apríl sl. óttuðust menn t.d. um framtíð evrunnar vegna uppnámsins sem skapaðist þegar veita átti Kýpur neyðaraðstoð. Kýpur fékk síðan samþykkt 10 milljarða lána björgunarpakka frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hollande heldur því fram að skuldavandinn hafi styrkt Evrópu.

„Ég trúi því að neyðarástandið muni ekki veikja evrusvæðið heldur muni það styrkja það,“ sagði hann á lokadegi heimsóknar sinnar í Japan. Nú búi menn yfir verkfærum til að tryggja samstöðu og stöðugleika. Þá segir hann að stjórn efnahagsmála á evrusvæðinu hafi batnað, bankabandalag hafi verið sett á laggirnar og reglur um fjárlög samþykktar sem muni gera mönnum betur kleyft að samræma aðgerðir og mynda sameiginlega stefnu.

Hollande hefur heitið því að fjölga störfum og auka hagvöxt í Frakklandi. Eftirspurn í heimalandinu hefur aftur á móti dregist mikið saman vegna evrukrísunnar. Atvinnuleysi í Frakklandi í júní hefur t.d. ekki verið meira í 15 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert