Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hvatti stuðningsmenn sína í dag í kjölfar mótmæla gegn stjórnvöldum sem stóðu yfir gærkvöldi og í nótt. Kveikt var í dekkjum og flugeldum var kastað í lögreglu sem svaraði með táragasi.
Átökin hafa sett enn meiri þrýsting á ríkisstjórn Tyrklands eftir að hann fyrirskipaði að mótmælunum skyldi hætt. Erdogan hefur ekki mætt viðlíka andstöðu og mótspyrnu á sinni 10 ára valdatíð.
Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á götum Istanbúl í nótt þar sem mótmæli og átök hafa geisað undanfarna 10 daga. Einnig komu mótmælendur saman í höfuðborginni Ankara og í borginni Izmir á vesturströnd landsins.
Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram en tyrkneskir fjölmiðlar greina hins vegar frá því að margir hafi særst í átökum sem blossuðu í Ankara. Þá réðist lögreglulið gegn um 10.000 mótmælendum.
Þá brutust út átök í Gazi-hverfinu í Istanbúl.
Erdogan hefur neitað að verða við kröfum mótmælenda. Í dag hvatti hann stuðningsmenn sína til að svara andstæðingum sí num með því að kjósa flokk Erdogans, sem nefnist Réttlætis- og þróunarflokkurinn (AKP), í sveitastjórnarkosningunum sem fara fram í Tyrklandi á næsta ári.
„Það eru aðeins sjö mánuðir fram að sveitastjórnarkosningunum. Ég vil að þið kennið þeim lexíu með lýðræðislegum hætti á kjörstað,“ sagði Erdogan á flugvellinum í borginni Adana, sem er í suðurhluta landsins. Þar tóku þúsundir stuðningsmanna forsætisráðherrans á móti honum og veifuðu tyrkneska fánanum.
Ríkisstjórn Tyrklands hélt því fram í gær að yfirvöld hefðu náð tökum á mótmælaöldunni, en aðeins nokkrum klukkustundum síðar safnaðist saman mikill fjöldi á Taksim-torgi í Istanbúl.