13 ára gömul egypsk stúlka, Suhair Al-Bata'a, lét lífið er hún undirgekkst umskurð í þorpi skammt frá Kaíró á síðastliðinn fimmtudag.
Þetta kemur fram í frétt Al Arabya.
„Við skildum dóttur okkar eftir hjá lækninum og 15 mínútum síðar hélt hjúkrunarfræðingur með hana á skurðstofu ásamt þremur öðrum stúlkum sem einnig voru á leið í umskurð,“ sagði Mohammed Ibrahim, faðir stúlkunnar. „Ég beið í hálftíma, vonandi að hún myndi vakna, en ólíkt hinum stúlkunum, gerði hún það ekki,“ sagði hann. Móðir stúlkunnar segist ætla krefjast réttlætis og fer fram á að læknirinn verði látinn sæta ábyrgð.
Lögmaður fjölskyldunnar segir að samkvæmt upplýsingum úr krufningarskýrslu megi rekja dánarorsök stúlkunnar til verulegrar lækkunar á blóðþrýstingi sökum áfalls.
Landssamtök kvenna í Egyptalandi hafa fordæmt atvikið og segja umskurð á stúlkum vera refsivert athæfi sem endurspegli gríðarlega villimennsku. Þá hefur UNICEF í Egyptalandi einnig fordæmt atvikið og segja umskurð á stúlkum hafa hvorki læknisfræðilegan né trúarlegan tilgang.
Talsmaður heilbrigðisráðuneytis Egyptalands sagði atvikið ekki hafa verið tilkynnt til landlæknis og áréttaði að umskurður á stúlkum væri ólöglegur.
Árið 1996 var limlesting á kynfærum kvenna lýst refsiverð í Egyptalandi, en margar fjölskyldur láta þó enn umskera dætur sínar.