Gæti fengið 10 ára dóm fyrir að koma upp um nauðgara

Tölvuhakkarahópurinn Anonymous kemur iðulega fram með grímu Guy Fawkes.
Tölvuhakkarahópurinn Anonymous kemur iðulega fram með grímu Guy Fawkes. AFP

Meðlimur tölvuhakkarahópsins Anonymous gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi fyrir að opinbera efni af samfélagsmiðlum sem átti stóran þátt í sakfellingu Steubenville-nauðgaranna.

Þetta kemur fram í frétt Huffington Post.

Hinn 26 ára Deric Lostutter frá Kentucky, betur þekktur sem KYAnonymous hafði forgöngu um að birta myndir, myndbönd, tíst og skilaboð sem vörpuðu ljósi á sekt þeirra Trent Mays og Ma'lik Richmond, sem voru í mars sl. dæmdir í eins og tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga skólasystur sinni. Stúlkunni var nauðgað í smábænum Steubenville í Ohio í ágúst sl. og voru fjölmargir vitni að ofbeldinu gagnvart henni. Meðal annars var birt efni af ofbeldinu á samfélagsmiðlum, þar á meðal var myndband af hluta fótboltaliðsins að spjalla saman um nauðgunina og hlæja að fórnarlambinu. „Þeir nauðguðu henni harkalegar en löggan nauðgaði Marsellus Wallace í Pulp Fiction [...] Þeir nauðguðu henni hraðar en Mike Tyson nauðgaði stelpunni þarna,“ má heyra einn þeirra segja.

Þessu efni hafði Lostutter upp á ásamt öðrum og skipti það lykilmáli í sakfellingu þeirra Mays og Richmond. Þá var síðan RollRedRoll.com, stuðningssíða fótboltaliðs menntaskóla bæjarins sem þeir Mays og Richmond tilheyrðu báðir, hökkuð og á henni birt myndband Lostutters þar sem hann hótaði að birta persónuupplýsingar um nauðgarana ef þeir bæðu fórnarlambið ekki afsökunar. Meðlimir fótboltaliðsins eru nánast í guðatölu í bænum og var talið afar líklegt að skólayfirvöld myndu reyna að þagga málið niður.

Lostutter hefur nú sagt frá því að 15. apríl sl. hafi bandaríska alríkislögreglan (FBI)gert húsleit á heimili hans. „Ég opnaði útidyrahurðina til að heilsa bílstjóra FedEx vörubíls sem lagt var í innkeyrslunni hjá mér þegar u.þ.b. 12 sérsveitarmenn FBI stukku út úr bílnum, öskruðu á mig að „drullast niður á jörðina“ og beindu m-16 árásarrifflum án öryggis beint að höfðinu á mér,“ útskýrir Lostutter. Hann segir sérsveitarmennina hafa tekið tvær fartölvur, harða diska, minniskubba, tvo farsíma og leikjatölvu af heimilinu.

Í leitarheimildinni kemur fram að Lostutter sé grunaður m.a. grunaður um tölvuglæpi og þjófnað á persónuupplýsingum. Hann segir að við leitina hafi honum verið hótað fangelsisvist, segði hann frá leitinni. Í tölvupósti sem hann fékk sendan frá alríkislögreglunni segir að hann megi búast við tilkynningu um að mál hans sé í rannsókn. Hefur hann ráðið sér lögfræðing úr Varnarteymi uppljóstrara (e. the Whistleblower Defense League), hópi aðgerðarsinnaðra lögmanna sem verja blaðamenn, uppljóstrara og hakkara. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.

Myndband frá kvöldi nauðgunarinnar, sem lak á netið, má sjá hér. Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.

Myndband Lostutters, sem birtist á heimasíðu aðdáendaklúbbs fótboltaliðsins, má sjá hér.

Frétt mbl.is: Piltarnir dæmdir fyrir nauðgun

Frétt mbl.is: Nauðgunarákæra klýfur smábæ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert