Meðlimur tölvuhakkarahópsins Anonymous gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsi fyrir að opinbera efni af samfélagsmiðlum sem átti stóran þátt í sakfellingu Steubenville-nauðgaranna.
Þetta kemur fram í frétt Huffington Post.
Hinn 26 ára Deric Lostutter frá Kentucky, betur þekktur sem KYAnonymous hafði forgöngu um að birta myndir, myndbönd, tíst og skilaboð sem vörpuðu ljósi á sekt þeirra Trent Mays og Ma'lik Richmond, sem voru í mars sl. dæmdir í eins og tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga skólasystur sinni. Stúlkunni var nauðgað í smábænum Steubenville í Ohio í ágúst sl. og voru fjölmargir vitni að ofbeldinu gagnvart henni. Meðal annars var birt efni af ofbeldinu á samfélagsmiðlum, þar á meðal var myndband af hluta fótboltaliðsins að spjalla saman um nauðgunina og hlæja að fórnarlambinu. „Þeir nauðguðu henni harkalegar en löggan nauðgaði Marsellus Wallace í Pulp Fiction [...] Þeir nauðguðu henni hraðar en Mike Tyson nauðgaði stelpunni þarna,“ má heyra einn þeirra segja.
Þessu efni hafði Lostutter upp á ásamt öðrum og skipti það lykilmáli í sakfellingu þeirra Mays og Richmond. Þá var síðan RollRedRoll.com, stuðningssíða fótboltaliðs menntaskóla bæjarins sem þeir Mays og Richmond tilheyrðu báðir, hökkuð og á henni birt myndband Lostutters þar sem hann hótaði að birta persónuupplýsingar um nauðgarana ef þeir bæðu fórnarlambið ekki afsökunar. Meðlimir fótboltaliðsins eru nánast í guðatölu í bænum og var talið afar líklegt að skólayfirvöld myndu reyna að þagga málið niður.
Lostutter hefur nú sagt frá því að 15. apríl sl. hafi bandaríska alríkislögreglan (FBI)gert húsleit á heimili hans. „Ég opnaði útidyrahurðina til að heilsa bílstjóra FedEx vörubíls sem lagt var í innkeyrslunni hjá mér þegar u.þ.b. 12 sérsveitarmenn FBI stukku út úr bílnum, öskruðu á mig að „drullast niður á jörðina“ og beindu m-16 árásarrifflum án öryggis beint að höfðinu á mér,“ útskýrir Lostutter. Hann segir sérsveitarmennina hafa tekið tvær fartölvur, harða diska, minniskubba, tvo farsíma og leikjatölvu af heimilinu.
Í leitarheimildinni kemur fram að Lostutter sé grunaður m.a. grunaður um tölvuglæpi og þjófnað á persónuupplýsingum. Hann segir að við leitina hafi honum verið hótað fangelsisvist, segði hann frá leitinni. Í tölvupósti sem hann fékk sendan frá alríkislögreglunni segir að hann megi búast við tilkynningu um að mál hans sé í rannsókn. Hefur hann ráðið sér lögfræðing úr Varnarteymi uppljóstrara (e. the Whistleblower Defense League), hópi aðgerðarsinnaðra lögmanna sem verja blaðamenn, uppljóstrara og hakkara. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.
Myndband frá kvöldi nauðgunarinnar, sem lak á netið, má sjá hér. Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.
Myndband Lostutters, sem birtist á heimasíðu aðdáendaklúbbs fótboltaliðsins, má sjá hér.