Gæti fengið 10 ára dóm fyrir að koma upp um nauðgara

Tölvuhakkarahópurinn Anonymous kemur iðulega fram með grímu Guy Fawkes.
Tölvuhakkarahópurinn Anonymous kemur iðulega fram með grímu Guy Fawkes. AFP

Meðlim­ur tölvu­hakk­ara­hóps­ins Anonymous gæti átt yfir höfði sér tíu ára fang­elsi fyr­ir að op­in­bera efni af sam­fé­lags­miðlum sem átti stór­an þátt í sak­fell­ingu Steu­ben­ville-nauðgaranna.

Þetta kem­ur fram í frétt Huff­ingt­on Post.

Hinn 26 ára Deric Lostutter frá Kentucky, bet­ur þekkt­ur sem KYAnonymous hafði for­göngu um að birta mynd­ir, mynd­bönd, tíst og skila­boð sem vörpuðu ljósi á sekt þeirra Trent Mays og Ma'lik Richmond, sem voru í mars sl. dæmd­ir í eins og tveggja ára fang­elsi fyr­ir að nauðga skóla­syst­ur sinni. Stúlk­unni var nauðgað í smá­bæn­um Steu­ben­ville í Ohio í ág­úst sl. og voru fjöl­marg­ir vitni að of­beld­inu gagn­vart henni. Meðal ann­ars var birt efni af of­beld­inu á sam­fé­lags­miðlum, þar á meðal var mynd­band af hluta fót­boltaliðsins að spjalla sam­an um nauðgun­ina og hlæja að fórn­ar­lamb­inu. „Þeir nauðguðu henni harka­leg­ar en lögg­an nauðgaði Marsellus Wallace í Pulp Ficti­on [...] Þeir nauðguðu henni hraðar en Mike Ty­son nauðgaði stelp­unni þarna,“ má heyra einn þeirra segja.

Þessu efni hafði Lostutter upp á ásamt öðrum og skipti það lyk­il­máli í sak­fell­ingu þeirra Mays og Richmond. Þá var síðan Roll­RedRoll.com, stuðnings­síða fót­boltaliðs mennta­skóla bæj­ar­ins sem þeir Mays og Richmond til­heyrðu báðir, hökkuð og á henni birt mynd­band Lostutters þar sem hann hótaði að birta per­sónu­upp­lýs­ing­ar um nauðgarana ef þeir bæðu fórn­ar­lambið ekki af­sök­un­ar. Meðlim­ir fót­boltaliðsins eru nán­ast í guðatölu í bæn­um og var talið afar lík­legt að skóla­yf­ir­völd myndu reyna að þagga málið niður.

Lostutter hef­ur nú sagt frá því að 15. apríl sl. hafi banda­ríska al­rík­is­lög­regl­an (FBI)gert hús­leit á heim­ili hans. „Ég opnaði úti­dyra­h­urðina til að heilsa bíl­stjóra FedEx vöru­bíls sem lagt var í inn­keyrsl­unni hjá mér þegar u.þ.b. 12 sér­sveit­ar­menn FBI stukku út úr bíln­um, öskruðu á mig að „drull­ast niður á jörðina“ og beindu m-16 árás­arriffl­um án ör­ygg­is beint að höfðinu á mér,“ út­skýr­ir Lostutter. Hann seg­ir sér­sveit­ar­menn­ina hafa tekið tvær far­tölv­ur, harða diska, minniskubba, tvo farsíma og leikja­tölvu af heim­il­inu.

Í leit­ar­heim­ild­inni kem­ur fram að Lostutter sé grunaður m.a. grunaður um tölvuglæpi og þjófnað á per­sónu­upp­lýs­ing­um. Hann seg­ir að við leit­ina hafi hon­um verið hótað fang­elsis­vist, segði hann frá leit­inni. Í tölvu­pósti sem hann fékk send­an frá al­rík­is­lög­regl­unni seg­ir að hann megi bú­ast við til­kynn­ingu um að mál hans sé í rann­sókn. Hef­ur hann ráðið sér lög­fræðing úr Varn­art­eymi upp­ljóstr­ara (e. the Whist­leblower Defen­se League), hópi aðgerðarsinnaðra lög­manna sem verja blaðamenn, upp­ljóstr­ara og hakk­ara. Verði hann fund­inn sek­ur á hann yfir höfði sér allt að tíu ára fang­elsi.

Mynd­band frá kvöldi nauðgun­ar­inn­ar, sem lak á netið, má sjá hér. Mynd­bandið er ekki fyr­ir viðkvæma.

Mynd­band Lostutters, sem birt­ist á heimasíðu aðdá­enda­klúbbs fót­boltaliðsins, má sjá hér.

Frétt mbl.is: Pilt­arn­ir dæmd­ir fyr­ir nauðgun

Frétt mbl.is: Nauðgun­ar­ákæra klýf­ur smá­bæ

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert