Lögreglan sem fer með rannsókn á óhugnanlegum morðum sem voru framin í frönsku Ölpunum í fyrra er nú að rannsaka af hverju bróðir eins fórnarlambsins hringdi mörgum sinnum til Rúmeníu, segir saksóknari sem fer með málið.
Saksóknarinn í Annecy, Eric Maillaud, segir að rúmensk yfirvöld hafi verið beðin að aðstoða við rannsókn á því í hvern eða hverja Zaid al-Hilli, bróðir Saads al-Hilli sem var eitt fórnarlambanna, hafi hringt. Hann segir þó að þessi tenging við Rúmeníu sé ekki mesta forgangsatriði rannsóknarinnar.
„Hins vegar verðum við að velta við hverjum steini,“ segir hann. „Þetta er meðal þeirra gríðarlega umfangsmiklu gagna sem við höfum aflað á síðustu mánuðum.“
Lögreglan telur að Saad al-Hilli hafi staðið í deilum við bróður sinn um arf stuttu áður en morðin voru framin. Morðin í Ölpunum báru mörg merki þess að ráðinn hefði verið leigumorðingi til verksins.
Zaid al-Hilli hefur hins vegar neitað sök en breska lögreglan hefur yfirheyrt hann vegna málsins og segir enn ekkert benda til þess að hann tengist morðunum.
Maillaud segir að Zaid al-Hilli hafi ekki verið beðinn um að útskýra símtölin til Rúmeníu. Það sé ekki hægt þar sem hann hafi ekki stöðu grunaðs manns í Bretlandi.
Saad al-Hilli, Iqbal eiginkona hans og móðir hennar voru skotin til bana í nágrenni Annecy-vatns 5. september í fyrra.
Tvær ungar dætur hjónanna lifðu árásina af en hjólreiðamaður sem kom að var einnig skotinn til bana. Lögreglan segist nú hafa útilokað að hjólreiðamaðurinn hafi verið skotmark morðingjans eins og talið var um tíma. Hann hafi einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma.