Sólarlandaferð á gjafverði

Hér áður var Kýpur einkum ferðamannaparadís í huga fólks en nú dettur fólki einna helst í hug þeir efnahagsörðugleikar sem landið hefur ratað í. Til þess að reyna laða ferðamenn að í sumar er hægt að fá ferðir þangað fyrir gjafverð.

Flugferðin kostar nú ekki nema 50 evrur fram og til baka frá Ítalíu og gisting á hóteli 40 evrur en það dugar ekki til því ferðamennirnir eyða ekki nægjanlega miklu að mati þeirra sem starfa við ferðaþjónustu á Kýpur.

Þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna baði sig nú í himinbláum sjónum eða flatmagi á gullnum ströndum Miðjarðarhafseyjunnar virðist sem færri ferðamenn, að minnsta kosti þeir sem eru til í að eyða miklu fé, séu á ferðalagi þar.

Breti sem AFP fréttastofan ræddi við segir að kreppan á Kýpur hafi ekki haft nein áhrif á áætlanir hans fyrir sumarið en hann kemur til Kýpur á hverju sumri. Hann hafi hins vegar haft með sér meira reiðufé en venjulega til öryggis. Aftur á móti komi það á óvart hversu fáir séu á veitingahúsunum.

Líkt og flest fyrirtæki á Kýpur eru flugfélag landsins, Cyprus Airways, í erfiðleikum en ákveðið var að halda því á lífi fram yfir ferðamannavertíðina. En eigendur ferðaþjónustufyrirtækja, hótela og veitingastaða segja að þrátt fyrir að fleiri ferðamenn séu á ferðinni heldur en þeir hafi í raun átt von á, eyði þeir sáralitlu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka