Eigendur fataverksmiðju í Bangladess urðu að koma til móts við starfsmenn og bjóða þeim upp á bænastund og að dreifa mat meðal fáttækra til að kveða niður draug sem starfsmennirnir sögðu halda til í verksmiðjunni.
Um 3.500 starfsmenn lögðu niður störf í verksmiðjunni í bænum Gazipur, norður af höfuðborginni Dakka. Fólkið eyðilagði innréttingar og krafðist þess að eigendur verksmiðjunnar gripu til aðgerða til að kveða niður draug sem sagður var halda sig á kvennaklósettinu.
Talsmaður lögreglunnar segir að starfsmennirnir hafi neitað að halda áfram vinnu sinni og framið skemmdar verk í verksmiðjunni til að leggja áherslu á kröfur sínar.
Lögreglan segir að eigendurnir hafi efnt til sérstakrar bænastundar og dreift mat til fátækra til að friða drauginn.
Vonast er til þess að starfsmennirnir mæti aftur til vinnu á morgun.
Heilbrigðisstarfsmaður segir að „draugaárásin“ geti verið merki um áfallastreituröskun hjá starfsfólkinu í kjölfar fjölmargra slysa, m.a. eldsvoða, í fataiðnaði landsins.