Efri deild rússneska þingsins hefur samþykkt lög gegn því sem kallað er áróður fyrir samkynhneigð. Frumvarpið fékk samþykki þrátt fyrir talsverðan þrýsting frá alþjóðasamfélaginu um að hafna því.
Yfirlýstur tilgangur laganna er að verja börn fyrir áróðri fyrir samkynhneigð þar sem slíkt geti haft neikvæð áhrif á þau. Málið var samþykkt nær einróma og án umræðu í þinginu en neðri deild þingsins hafði þegar veitt frumvarpinu samþykki.
Þá samþykkti efri deild þingsins jafnframt frumvarp sem leggur bann við ættleiðingum samkynhneigðra para. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur heitið því að samþykkja frumvarpið og telur að það troði ekki á mannréttindum. Segir hann að ekki sé verið að banna samkynhneigð heldur sé verið að verja börn fyrir „samkynhneigðum áróðri.
Samtök samkynhneigðra hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og segja það til marks um fasíska stjórnarhætti í landinu. Fjöldi mannréttindasamtaka hefur tekið í sama streng. Þá hafa erlendir stjórnmálamenn einnig hvatt þingmenn til að hafna frumvarpinu.
Einstaklingar sem brjóta lögin geta fengið allt að 100 þúsund rúblna sekt sem jafngildir rúmlega 370 þúsund krónum. Samtök eða fyrirtæki geta hins vegar fengið sekt upp á allt að milljón rúblur sem jafngildir rúmum 3,7 milljónum króna sem og að starfseminni verði lokað í allt að 90 daga. Þá ná lögin einnig til útlendinga sem geta fengið allt að 100 þúsund rúblna sekt og verið vikið úr landinu.