Abdel Fattah al-Sisi, yfirmaður hersins í Egyptalandi, lýsti því yfir í kvöld að Mohamed Morsi forseti sé farinn frá völdum og forseti stjórnlagadómstólsins hafi verið skipaður forseti til bráðabirgða.
Skriðdrekar og brynvarðir bílar hafa komið sér fyrir á mikilvægum stöðu í Kairó, höfuðborg Egyptalands. Andstæðingar Morsi forseta fagna aðgerðum hersins, en stuðningsmenn hans segja að valdarán hersins sé hafið.
Morsi sagði í gær að hann myndi ekki gefast upp og ekki kæmi til greina að hann segði af sér. Fregnir herma að herinn hafi sett ferðabann á forystumenn Bræðralags múslima til að koma í veg fyrir að þeir komist úr landi.
Herinn gaf í fyrradag stjórnmálamönnum í Egyptalandi 48 klukkustundir til að jafna ágreining milli þeirra. Ef það tækist ekki myndi herinn grípa til aðgerða til að stuðla að friði og stöðugleika í landinu. Þessi frestur er núna liðinn án samkomulags stjórnmálafla í landinu og svo virðist sem herinn ætli að fylgja orðum sínum eftir og grípa inn í atburðarásina.
Morsi var kjörinn forseti fyrir réttu ári, en hann var í flokki Bræðralags múslima. Stuðningsmenn Morsi segja að hann sé lýðræðislega kjörinn og herinn eigi ekkert með að taka fram fyrir hendur á forsetanum.
Milljónir manna hafa mótmælt á götum stærstu borga Egyptalands síðustu daga, en krafa þeirra hefur verið að Morsi segi af sér. Mótmælendur fögnuðu í dag aðgerðum hersins.
„Morsi á það skilið að fara með þessum hætti. Hann var forseti Bræðralags múslima, en ekki Egyptalands,“ segir Amr Mohammed, sem býr í Kairó.
Óttast er að komi til blóðugra átaka milli stuðningsmanna og andstæðinga Morsi.
Stjórnvöld nokkurra landa hafa varað ferðamenn við því að ferðast til Egyptalands vegna ólgunnar í landinu. Utanríkisráðuneyti Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem varað er við ferðalögum til Egyptalands.