Morsi í haldi hersins

Egypski herinn hefur staðfest að hann hafi Mohamed Morsi, fyrrverandi forseta Egyptalands, í haldi. Þetta staðfesti herinn við AFP-fréttastofuna í dag. Talsmenn hersins hafa gefið í skyn að Morsi verði líklega ákærður fljótlega.

Morsi var handtekinn ásamt helstu ráðgjöfum sínum eftir að hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann talaði til stuðningsmanna sinna og hvatti þá til stuðnings við sig. Þar bað hann alla Egypta um að lúta lögum landsins og bregðast ekki við því sem hann kallaði valdarán.

Að sögn talsmanna hersins jók Morsi aðeins á óvild milli stuðningsmanna sinna og andstæðinga með ávarpinu og verði það ekki liðið. Því hafi hann verið tekinn höndum. Ávarpið var sent út nokkru eftir að herinn steypti Morsi af stóli. Talið er að honum sé nú haldið í húsnæði varnarmálaráðuneytisins í landinu. 

Mörg þúsund manns fögnuðu, skutu upp flugeldum og blésu í horn þegar herinn tilkynnti að Morsi færi ekki lengur með stjórn landsins. 

Frá Egyptalandi.
Frá Egyptalandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert