Foreldrarnir ekki grunaðir

Foreldrar Madeleine McCann sem hvarf af hótelherbergi í Portúgal árið 2007 eru ekki meðal grunaðra í málinu. Breska lögreglan hefur ákveðið að hefja  rannsókn á hvarfi stúlkunnar. Portúgalska lögreglan hefur hætt rannsókn en eftir að yfirfara gögn telur sú breska grundvöll til að hefja formlega eigin rannsókn. Talsmaður hennar segir að 38 menn einstaklingar verði yfirheyrðir vegna málsins. Tólf þeirra eru breskir ríkisborgarar sem taldir eru hafa verið í Portúgal er Madeleine hvarf.

Lundúnalögreglan segir að ný gögn hafi komið fram í málinu. Yfirmaður rannsóknarinnar,  Andy Redwood, segir að Madeileine geti enn verið á lífi.

Redwood segir að farið verði gaumgæfilega yfir mál allra hinna 38 einstaklinga sem yfirheyrðir verða og hugsanlegt hlutverk þeirra í hvarfi stúlkunnar.

Foreldrar Madeleine, Gerry og Kate, eru ekki meðal grunaðra. Þá er vinafólk þeirra, sem þau voru að borða með er stúlkan hvarf, ekki heldur grunað um aðild að hvarfinu.

Gerry og Kate leituðu dóttur sinnar með logandi ljósi í mörg ár. Hún hvarf af hótelbergi þar sem þau voru í fríi í Praia da Lux á suðurströnd Portúgals árið 2007. Foreldrarnir voru úti að borða og höfðu skilið stúlkuna eina eftir.

Myndir af stúlkunni voru ítrekað birtar í fjölmiðlum en leit Gerry og Kate skilaði engum árangri.

Lundúnalögreglan segir engar skýrar sannanir fyrir því að stúlkan sé látin. „Ég trúi því í einlægni að mögulegt sé að hún sé á lífi og ég bið almenning að halda áfram að leita að henni,“ segir lögregluforinginn Redwood.

Frá því að breska lögreglan hóf að skoða málið fyrir tveimur árum hefur hún aflað gríðarlegs magns gagna og heimsótt Portúgal 16 sinnum. Þá hafa ný vitni verið yfirheyrð og nýjar kenningar um hvarfið verið settar fram.

„Við nálgumst málið nú öðruvísi, með nýjum kenningum, nýjum sönnunargögnum og nýjum vitnum,“ segir Redwood. „Ég held að þetta sé mikilvægt augnablik fyrir Madeleine.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert