Boeing 777-flugvél brotlenti á flugvellinum í San Francisco í kvöld. Engar fregnir hafa borist af mannfalli. Ekki er ljóst hvað olli slysinu. Vélin var á leið til San Francisco frá Incheon-flugvelli nærri Seúl í Suður-Kóreu. Lögregluyfirvöld telja ekki að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Scott Brenner, fyrrverandi yfirmaður hjá flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum, sagði í samtali við Fox-sjónvarpsstöðina að hann hefði öruggar heimildir fyrir því að allir farþegar hefðu komist frá borði áður en eldurinn breiddist út um farþegarýmið og að allir hefðu komist lífs af frá borði. Hann segir snör handtök áhafnarmeðlima að öllum líkindum hafa komið í veg fyrir að ekki fór verr.
Vélin er í eigu Asiana Airlines. Mynd sem birtist á twitter sýnir fólk hlaupa út úr vélinni, sem virðist vera stéllaus.
„Flugvélin bara brotlenti. Stélið rifnaði af. Allir virðast samt vera í lagi,“ skrifar David Eun, sem var um borð í flugvélinni. Hann líkir tilfinningunni við þær sem hann upplifið 11. september 2001.
Samkvæmt BBC voru 12 í áhöfn vélarinnar og 290 farþegar. Svo virðist sem vélin hafi í raun lent og síðan brotlent á flugbraut 28 að sögn Lauru Brown, talsmann flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum.
Sjónarvottur að brotlendingunni sagði CNN að þegar vélin lenti á flugbrautinni hafi kviknað mikill eldur og að vélin hafi snúist áður en að stélið brotnaði af henni.
Á myndbandinu hér að neðan má sjá reyk stíga frá vélinni.