Óeirðalögregla í Tyrklandi beitti í dag táragasi, vatnsþrýstibyssum og byssum með gúmmíkúlum gegn mótmælendum í Tyrklandi. Lögreglan greip til þessa til að koma í veg fyrir að mótmælendur færi inn í Gezi-garð, sem er táknrænn fyrir mótmæli Tyrkja gegn stjórn Tayyp Erdogan undanfarnar vikur.
Tyrknesk yfirvöld höfðu stuttu áður opnað garðinn aftur fyrir almenningi. Ungur mótmælandi hrópaði „Fjórir létu lífið í þessum garði! Hann skal opnaður almenningi!,“ meðan aðrir mótmælendur reyndu að tala um fyrir lögreglu og sannfæra þá um að hætta að vísa öllum út úr garðinum
Yfirvöld lýstu því yfir þegar garðurinn var opnaður að mótmæli yrðu ekki liðin í honum, en fljótlega eftir að hann var opnaður voru teikn á lofti um að mótmælendur myndu snúa aftur í garðinn
Skemmst er að minnast þess þegar óeirðalögregla fór fram af hörku gegn friðsömum setumótmælum þan 31. maí. Mótmælin sem í upphafi beindust gegn fyrirætlunum borgaryfirvalda í Istanbúl um að fella 600 tré í garðinum snérust fljótlega upp í allsherjarmótmæli gegn ríkisstjórn landsins. Mótmælendur héldu garðinum í tvær vikur áður en lögregla lét til skarar skríða þann 15. júní. Síðan þá hefur garðurinn verið lokaður.