Myndskeið af fórnarlömbum Castro

Konurnar þrjár sem voru lokaðir inni húsi í Cleveland í Ohio í áratug hafa sent frá sér myndskeið þar sem þær þakka fyrir þann stuðning sem þær hafa fengið. Ariel Castro, sem ákærður er fyrir að loka konurnar inn og níðast á þeim, á dauðadóm yfir höfði sér.

„Ég vil láta alla vita af því hversu hamingjusöm ég er yfir því að vera komin heim til fjölskyldu minnar og vina,“ segir Amanda Berry í myndskeiðinu. Það var hún sem hringdi í neyðarlínuna í maí eftir að nágranni Castro hjálpaði henni að komast út. Berry eignaðist dóttur í prísundinni og er Castro faðir hennar.

„Það getur verið að ég hafi gengið í gegnum helvíti og komist þaðan aftur, en ég er það sterk að ég komst í gegnum helvíti með bros á vör. Ég ber höfuðið hátt og er með fæturna á jörðinni,“ segir Michelle Knight, en henni var nauðgað ítrekað og var látin ganga í gegnum fóstureyðingu meðan hún var lokuð inni.

Konurnar þrjár víkja ekki einu orði að Castro í yfirlýsingunni. Réttarhöldin yfir honum eiga að hefjast í byrjun ágúst.

Ákæruliðirnir gegn Catro eru 329 talsins. Þar af eru 139 liðir vegna nauðgunar og 177 vegna mannráns.

Castro, sem er 52 ára gamall, er jafnframt ákærður fyrir manndráp með því að hafa framkallað fósturlát hjá Michelle Knight.

Michelle Knight er 32 ára, Amanda Berry er  27 ára og Gina DeJesus er 23 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert