Rannsókn Öryggis- og samgöngunefndar Bandaríkjanna (NTSB) á flugslysinu á flugvellinum í San Francisco heldur áfram. Í ljós hefur nú komið að flugáhöfn vélarinnar, sem var af gerðinni Boeing 777, sá ekki flugbrautina skömmu fyrir lendingu.
Alls voru 307 um borð í flugvélinni þegar hún brotlenti við lendingu á flugvellinum í San Francisco á leið sinni frá Incheon-flugvelli nærri Seúl í Suður-Kóreu. Tvær ungar stúlkur á skólaferðalagi létust í slysinu en 181 var fluttur á sjúkrahús.
Rannsókn Öryggis- og samgöngunefndar Bandaríkjanna beinist nú einkum að mannlega þættinum og þá hvort flugmenn vélarinnar hafi gert mistök við lendingu. Fram hefur komið að flugstjóri vélarinnar, sem heitir Lee Kang-Kuk, hafi einungis lokið 43 flugtímum í flugvél af þessari gerð áður en slysið átti sér stað. Hann naut hins vegar leiðsagnar þjálfunarflugstjóra þetta umrædda flug. Með þeim í flugstjórnarklefanum voru tveir aðrir flugmenn á vegum flugfélagsins Asiana Airlines.
Flugstjórinn Lee Kang-Kuk var um það bil hálfnaður með þjálfun sína þegar slysið varð en áður hafði hann flogið 29 sinnum til San Francisco með flugvél af gerðinni Boeing 747. Þjálfunarflugstjórinn hefur 13.000 flugtíma að baki, þar af 3.000 með Boeing 777, en þetta var hins vegar í fyrsta sinn sem hann gegndi stöðu þjálfunarflugstjóra.
„Þjálfunarflugstjórinn sagði við yfirheyrslur að hann hefði verið við stjórn. Þetta var í fyrsta skipti sem þeir flugu saman,“ segir Deborah Hersman, stjórnandi rannsóknarinnar, í samtali við AFP-fréttastofuna.
Yfirheyrslum yfir þremur af fjórum flugmönnum er lokið samkvæmt upplýsingum frá Öryggis- og samgöngunefnd Bandaríkjanna. „Flugmaðurinn sem sat í aukasæti flugstjórnarklefans [sem var aðstoðarflugmaður] sagði við yfirheyrslur að hann gat ekki séð flugbrautina þaðan sem hann sat. Nef vélarinnar vísaði upp svo hann sá ekki brautina,“ segir Hersman.
Hersman segir slysið hafa átt sér stað einungis fáeinum sekúndum síðar þegar vélin var í 500 feta hæð og þjálfunarflugstjórinn „áttaði sig á því að vélin væri of lágt á lofti.“
„Þá teygði hann sig til þess að ýta eldsneytisgjöfinni fram en þá hafði hinn flugmaðurinn þegar gert það,“ segir Hersman.
Þegar hefur komið fram að um einni og hálfri sekúndu áður en farþegaflugvélin skall á jörðina óskaði flugmaðurinn eftir heimild frá flugturninum til að hætta við lendingu. Sú ákvörðun kom hins vegar of seint og rakst vélin utan í varnarvegg. Í kjölfarið varð hún stjórnlaus og brotlenti við enda flugbrautarinnar. Skömmu síðar kviknaði í hreyfli og breiddist eldurinn fljótt út.