Flugmaðurinn blindaðist af skæru ljósi

Deborah Hersman á blaðamannafundinum.
Deborah Hersman á blaðamannafundinum. JUSTIN SULLIVAN

Flugmaður vélarinnar sem brotlenti í San Francisco kann að hafa blindast af skæru ljósi þegar hann var að fara að lenda vélinni.

Lee Kang Kuk, sem var að lenda á flugvellinum í fyrsta sinn og hafði aðeins 43 flugtíma að baki á Boeing 777, segist hafa séð skæran ljósblossa þegar hann nálgaðist flugbrautina. Það gerðist u.þ.b. 35 sekúndum áður en vélin brotlenti, þegar hún var í um 150 metra hæð. Á þeirri stundu byrjaði flugvélin að hægja á sér og missa hæð.

Frá þessu greindi Deborah Hersman, hjá Öryggis- og samgöngunefnd Bandaríkjanna, á blaðamannafundi. Hún sagði að notkun leysirs hafi ekki verið útilokuð. Ekki sé ljóst hvort ljósblossinn hafi orsakað slysið eða hvort aðrir þættir hafi spilað inn í.

Upptökur af símtölum fólks til bandarísku neyðarlínunnar hafa verið gerðar opinberar. Á einni upptökunni má heyra konu grátbiðja um að sjúkrabílar verði sendir á staðinn. „Það er fjöldi fólks sem þarfnast hjálpar ... Það er fólk hérna sem er mjög illa brennt.“

Komið hefur í ljós að fyrst eftir brotlendinguna voru farþegar beðnir um að yfirgefa ekki flugvélina. Samkvæmt Öryggis- og samgöngunefndinni fór fólk ekki út fyrr en eldur braust út einni og hálfri mínútu eftir brotlendingu.

„Við vitum ekki hvað flugmennirnir voru að hugsa, en ég get þó sagt ykkur að í öðrum slysum hefur það gerst að áhafnir hafa ekki rýmt vélarnar, þær bíða eftir að önnur farartæki komi og aðstoði við að ná farþegunum út með öruggum hætti,“ sagði Hersman. Mögulega hafi flugmennirnir ekki séð eldinn sem logaði í ytra byrði vélarinnar.

Öryggis- og samgöngunefndin reynir nú að púsla saman atburðarásinni þennan örlagaríka laugardag og nýtir til þess viðtöl við flugmennina, upptökur úr stjórnklefanum og upptökur af samskiptum við flugturninn.

Tvær ungar stúlkur létust í slysinu.

Stél flugvélarinnar.
Stél flugvélarinnar. JUSTIN SULLIVAN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert